Upp­gjörið: Þýska­land - Ís­land 29-31 | Svöruðu skellinum með frá­bærum sigri

Árni Gísli Magnússon skrifar
Orri Freyr átti atvik leiksins.
Orri Freyr átti atvik leiksins. Vísir/Diego

Íslenska karlalandsliðið í handbolta sigraði Þýskaland í vináttulandsleik þjóðanna ytra í dag þar sem lokatölur urðu 29-31 en liðin mættust einnig á fimmtudaginn var og beið þá íslenska liðið afhroð.



Það var því allt annað að sjá íslenska liðið í dag sem sýndi góðan leik sem þarf svo sannarlega til svo að sigur sækir gegn eins sterkri þjóð á þeirra eigin heimavelli.

Leikirnir eru liður í undirbúningi liðanna fyrir Evrópumótið sem fram fer í janúar.

Þýska liðið byrjaði af krafti og skoraði fyrstu tvö mörk leiksins áður en Elvar Örn Jónsson kom Íslandi á blað.

Þjóðverjar spiluðu hraðan bolta í upphafi leiks sem íslenska liðið átti fá svör við og staðan 5-2 fyrir heimamönnum eftir tæpar tíu mínútur en þá hrökk íslenska liðið í gang og skoraði næstu þrjú mörk og staðan skyndilega 6-5 Íslandi í vil.

Liðin skiptust á að skora þar til um átta mínútur voru eftir af hálfleiknum en þá kom góður kafli hjá Íslandi sem komst fjórum mörkum yfir, 16-12.

Björgvin Páll Gústafsson var góður á milli stanganna og varði sjö skot í hálfleiknum en það gerði David Späth sömuleiðis í marki heimamanna. Óðinn Þór var að nýta hraðaupphlaupin vel sem fylgdu í kjölfarið og skoraði úr þremur slíkum.

Þjóðverjar bitu frá sér undir lok hálfleiksins og leiddi Ísland því aðeins með einu marki í hálfleik, 15-16.

Síðari hálfleikurinn fór af stað með hvelli og rigndi mörkunum inn til skiptis fyrstu mínúturnar.

Jafnræði var með liðunum allan hálfleikin en íslenska liðið passaði sig á því að hleypa heimamönnum aldrei í bílstjórasætið þrátt fyrir að þeir hafi náð að jafna leikinn margoft.

Viktor Gísli kom stóð vaktina í markinu í síðari hálfleik og stóð sig með prýði líkt og Björgvin Páll í fyrri hálfleik og munar um minna.

Þá var varnarleikurinn heilt yfir að standa ágætlega og flott flæði í sóknarleiknum sem skilaði mörkum úr öllum áttum.

Lokamínúturnar væri æsispennandi en Þjóðverjar minnkuðu muninn í eitt mark þegar um 15 sekúndur voru eftir en strákarnir okkar gerðu engin mistök í lokasókninni og kórónaði Óðinn Þór Ríkharðsson frábæran leik sinn og Íslands með lokamarki leiksins og tryggði Íslandi tveggja marka sigur. Lokatölur 29-31.

Atvik leiksins

Orri Freyr Þorkelsson skoraði frábært sirkus mark í fyrri hálfleik þegar hann sveif inn teiginn og greip boltann eftir sendingu frá Óðni Þór í hinu horninu og kom boltanum í netið. Skemmtilegt mark.

Stjörnur og skúrkar

Það vita það allir sem hafa séð Óðinn Þór Ríkharðsson spila handbolta að þarna er á ferðinni einhver mesti markaskorari sem sögur fara af og bráðskemmtilegt að fylgjast með honum. Hann skoraði átta mörk úr átta skotum í dag og var frábær.

Gísli Þorgeir Kristjánsson er heilinn í sóknarleik liðsins, skoraði fimm mörk og skapaði helling af færum fyrir liðsfélaga sína.

Markavarslan var góð í dag, sem var algjör lykilatriði til að sækja sigurinn þar sem markvarslan var lítil sem engin í fyrri leiknum.

Björgvin Páll stóð vaktina í fyrri hálfleik og varði sjö skot, sem gerir 32% markvörslu.

Viktor Gísli Hallgrímsson tók svo síðari hálfleik og varði sex skot, sem gerir 30% markvörslu.

Varnarleikurinn var einnig nokkuð góður stóran hluta leiksins en það er erfitt að spila góða vörn í 60 mínútur gegn þessu kraftmikla þýska liði.

Hjá Þjóðverjum var Marko Grgic illviðráðanlegur og skoraði sex mörk úr níu skotum.

Tim Freihöfer og Julian Köster komu þar á eftir með fimm mörk hvor.

David Späth fór hamförum í fyrri hálfleik í markinu en hægði á sér í þeim seinni og endaði með ellefu varða bolta sem gerir 27% markvörslu.

Juri Knorr, ein skærasta stjarna liðsins, náði sér ekki á strik og skoraði aðeins eitt mark úr fimm tilraunum.

Dómarar

Þeir stóðu sig vel í dag og voru með lang flesta dóma rétta en létu plata sig í tvígang með smá leikaraskap hjá þeim þýsku.

Umgjörð og stemning

Þjóðverjar kunna svo sannarlega að búa til flotta umgjörð í kringum íþróttaviðburði og var þessi vináttulandsleikur engin undantekning. Liðin voru kynnt inn með látum ásamt ljósa sýningu og hvaðeina. Þá heyrðist vel í þýskum stuðningsmönnum á pöllunum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira