Menning

Þrjár sýningar, fjórir listamenn

Verk eftir bandaríska listamanninn Creighton Michael.
Verk eftir bandaríska listamanninn Creighton Michael.

Hvorki meira né minna en þrjár nýjar sýningar verða opnaðar í StartArt listamannahúsi, Laugavegi 12b, í dag kl. 17. Um er að ræða sýningar listamannanna Creighton Michael, Magdalenu Margrétar og samsýningu þeirra Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur og Þórdísar Jóhannesdóttur.

Sýning Creightons Michael nefnist Bylgjulengdir. Á henni sýnir hann tví- og þrívíðar teikningar sem innblásnar eru af náttúru íslands. Í flestum verkum sínum leggur Michael fyrst og fremst áherslu á teikningu; hann vinnur með liti og þrykk og teiknar á pappír, auk þess sem hann býr til svokallaðar skúlptúrteikningar. Enn fremur má finna sterk áhrif frá ritun og letri í flestum verka hans og því er ekki fráleitt að varðveisla íslenskrar menningar í handritaformi hafi einnig haft sín áhrif á listsköpun hans. Um þessar mundir stendur einnig yfir sýning á verkum Creightons Michael í Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, og því úr nægu að moða fyrir aðdáendur verka hans. Listamaðurinn sjálfur verður viðstaddur opnunina á verkum sínum í StartArt í dag.

Grafíklistakonan Magdalena Margrét Kjartansdóttir opnar sýninguna Svart List í forsal StartArt. Magdalena hefur starfað sem grafíklistamaður frá 1984 og vakið athygli fyrir stór verk þrykkt á pappír. Verkin sem hún sýnir nú eru svartar tréristur er fjalla um fórnina, eilífðina, endurfæðinguna og hringrásina sem tengir þetta saman.

Þriðja sýningin sem opnuð verður í dag nefnist Flökt og er í austur- og vestursal jarðhæðar StartArt. Á henni tefla þær Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Þórdís Jóhannesdóttir saman hugmyndum sínum á óhefðbundinn hátt með því að nota verk hvor annarrar sem efnivið í nýjar innsetningar. Sýningin virkar þannig sem sjónræn rannsókn sem taka mun breytingum daglega, en með henni vilja listakonurnar vekja upp spurningar er varða sjónmenningu, frumleika, höfundarrétt og traust og ferli sköpunar gagnvart hinu fullkláraða verki. - vþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×