Menning

Frönsk leik- og gjörningalist

Marc Joseph Sigaud Höfundur sýningarinnar Skin & the Whales sem sýnd verður í Norræna húsinu um helgina.
Marc Joseph Sigaud Höfundur sýningarinnar Skin & the Whales sem sýnd verður í Norræna húsinu um helgina.

Parques Majeures er franskur leik- og gjörningahópur sem hefur sérhæft sig í sýningum á nýstárlegri hreyfimyndalist. Hópurinn er um þessar mundir hér á landi í boði fyrirtækjanna Adami og Spedidam og hefur ferðast um landið með sýningu sína Skin & the Whales. Hún var til að mynda sýnd á Húsavík nú um síðustu helgi.

Þeir höfuðborgarbúar sem eru sérlega áhugasamir um franska gjörningalist geta nú tekið gleði sína þar sem að sýningin verður sett upp í Norræna húsinu nú um helgina. Höfundur sýningarinnar er Marc Joseph Sigaud, en hún byggist upp í kringum hreyfimyndir sem varpað er í leikmyndina og að auki hreyfa leikarar sig inn og úr mynd. Sýningin skiptist upp í þrjá hluta þar sem fyrstu tveir hlutarnir takast á við mannslíkamann en þriðji hlutinn, Whales, fjallar um samband mannlegs eðlis við náttúruna. Þessi síðasti kafli verksins varð reyndar til fyrir tilstuðlan fyrstu ferðar Marcs Joseph til Húsavíkur fyrir tveimur árum og má því halda því fram að íslensk náttúra hafi enn á ný sannað áhrifamátt sinn.

Sýningarnar í Norræna húsinu fara fram í kvöld og annað kvöld kl. 20. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.- vþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×