Menning

Reykjavík Jazz 2008 hefst í kvöld

Agnar Már er með tvenna tónleika í Vonarsalnum í Efstaleiti og verða þeir fyrri kl. 18 en seinni kl. 22.
Agnar Már er með tvenna tónleika í Vonarsalnum í Efstaleiti og verða þeir fyrri kl. 18 en seinni kl. 22.

Næstu dægrin bylur djassinn. Djasshátíð byrjar með fimm samkomum og tónleikum í kvöld og stendur óslitið fram á sunnudag. Mikill fjöldi tónleika er á dagskránni og vantar ekki fjölbreytnina. Boðið er upp á margvísleg kjör á miðum næstu daga og geta áhugasamir kynnt sér dagskrána í heild á vef hátíðarinnar: www.jazz.is/festival. Svo margir viðburðir eru í boði að best er að skoða dagskrána í heild á vefnum.

Það verða Agnar Már og félagar sem hefja hátíðina í dag kl. 18 í sal SÁÁ í Efstaleiti. Hann treður aftur upp kl. 22 í kvöld með sama prógram sem þá verður hljóðritað. Fyrsti diskur hans, Láð, vakti mikla athygli og hann tekur upp þráðinn þar sem frá var horfið. Með honum leika þeir Bill Stewart á trommur og Ben Street á bassa. Agnar fékk margvíslegan heiður fyrir fyrsta diskinn sinn.

Setningin er síðan kl. 20 í Iðnó. Þar koma fram Haukur Gröndal og hljómsveit Olivers Manoury. Klukkustund síðar er tríó þriggja ungra spilara, K tríó, með tónleika þar en það skipa þeir Kristján Martinsson á píanó, Pétur Sigurðsson bassi og Magnús Tryggvason Elíassen á trommur. Þaðan má svo halda á Glaumbar þar sem Sammi í Jagúar hefur rekið Bítbox, klúbb fyrir rythmíska tónlist af öllu tagi.

Menn taka daginn snemma á morgun en þá verða tónleikar í Ingólfsnausti kl. 12.15. Frítt er inn á þá eins og opnunina í Iðnó í kvöld.

Djasshátíðin er nú haldin í nítjánda sinn. Helstu styrktaraðilar hennar eru FÍH og Reykjavíkurborg. Tónleikar verða á nokkrum stöðum í borginni: í Iðnó, Fríkirkjunni, Háskólabíói og á Nasa við Austurvöll, í Vonarsalnum, Norræna húsinu og Rúbín í Öskjuhlíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×