Innlent

Framsóknarmenn vilja endurskoða samgönguáætlun

Það þarf að afla samneyslunni meiri tekna og útrýma ranglætinu úr skattakerfinu, að mati Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra og frambjóðanda VG til Alþingis.

Ögmundur sagðist, í samtali við Heimi Má Pétursson og Sólveigu Bergmann á Stöð 2, vilja gera skattakerfið sanngjarnara þannig að þeir sem væru með 500 þúsund krónur í tekjur eða meira legðu hlutfallslega meira af mörkum en aðrir. Þá sagði Ögmundur að ríkisstjórnin gæti blásið ýmislegt út af borðinu til að hagræða í ríkisrekstri.

Tryggvi Þór Herbertsson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, sagði að tillögur Ögmundar skiluðu einungis um 4 milljörðum í ríkissjóð. Sjálfstæðisflokkurinn væri á móti hærri sköttum en hins vegar þyrfti að breikka skattastofnana.

Björgvin G. Sigurðsson, frambjóðandi Samfylkingarinnar, sagðist ekki vilja flatan niðurskurð eða skattahækkanir. Hann sagði að gæta þyrfti aðhalds í ríkisrekstri, fækka ráðuneytum, auka verðmætasköpun. Þá lagði Björgvin áherslu á inngöngu í Evrópusambandið.

Helga Sigrún Harðardóttir, frambjóðandi Framsóknarflokksins, sagði að hægt væri að skera niður, til dæmis þyrfti að endurskoða samgönguáætlun. Helga sigrún lagði þó áherslu á að staðan væri mjög óljós. Reyndar svo óljós að þegar að hún hefði verið boðuð til umræðnanna hefði verið talið að fjárlagagatið yrði 150 milljarðar, en þegar hún var mætt til umræðnanna væri talið að fjárlagagatið yrði 180 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×