Innlent

Útilokar núverandi stjórnarsamstarf án niðurstöðu um ESB

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgvin segir að stjórnarflokkarnir verði að leiða til lykta ágreining um ESB. Mynd/ GVA.
Björgvin segir að stjórnarflokkarnir verði að leiða til lykta ágreining um ESB. Mynd/ GVA.
Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, útilokar samstarf við Vinstri hreyfinguna - grænt framboð nema að ágreiningur um aðildarviðræður við Evrópusambandið verði til lykta leiddur. Hann segir að Samfylkingin muni ekki selja frá sér aðildarviðræður við ESB við stjórnarmyndun. Þetta kom fram í máli Björgvins á borgarafundi sem sjónvarpað var beint á Ríkissjónvarpinu í kvöld.

Árni Páll Árnason, félagi Björgvins í þingflokki Samfylkingarinnar tók í svipaðan streng í umræðum um Evrópusambandið, á Stöð 2 í kvöld. Árni Páll sagði að aðildarviðræður við Evrópusambandið væri fyrsta mál á dagskrá og brýnasta verkefnið framundan. Samfylkingin myndi leggja höfuðáherslu á Evrópusambandsaðild í stjórnarmyndunarviðræðum að loknum kosningum.

Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og menntamálaráðherra sagði, við sama tækifæri á Stöð 2, að enginn gæti sett ófrávíkjanlega kröfu í stjórnarmyndunarviðræðum. Hún sagði að VG hefði sett mikinn fyrirvara við inngöngu í Evrópusambandið. Benti hún á að lýðræðishalli væri í Evrópusambandinu og að sjávarútvegsstefna og landbúnaðarstefna Evrópusambandsins myndi ekki gera það fýsilegan kost fyrir Íslendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×