Innlent

Allir nema Álfheiður eiga hlut í Smugunni

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG.
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG.
Allir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs fyrir utan Álfheiði Ingadóttur eiga hlut í vefmiðlinum Smugunni. Meirihluti þeirra á hlut í Friðarhúsi, húsnæði Samtaka hernaðarandstæðinga. Formaður flokksins á 200 þúsund krónu hlut í Efnalaug Suðurlands.

Vinstri grænir hafa birt lista á heimasíðu sinni yfir fjárhag og hagsmunatengsl frambjóðenda í efstu sætum á framboðslistum flokksins í öllum kjördæmum.

Þar kemur meðal annars fram að átta af níu þingmönnum flokksins eru meðal hluthafa í vefmiðlinum Smugunni. Flestir eiga 20-25 þúsund krónu hlut fyrir utan formanninn, Steingrím J. Sigfússon. Hann á 100 þúsund krónu hlut í vefmiðlinum.

Á Smugunni kemur fram að vefmiðillinn er sjálfstæður en jafnframt að hann sé kostnaður af Vinstri grænum.

Atli á stærsta hlutinn í Friðarhúsinu

Steingrímur, Kolbrún Halldórsdóttir, Ögmundur Jónasson, Katrín Jakobsdóttir og Árni Þór Sigurðsson eiga öll 10-30 þúsund krónu hlut í Friðarhúsinu. Stærstan hlut á Atli Gíslason eða 200 þúsund krónur.

Þingflokksformaðurinn Jón Bjarnason á hlutabréf í þremur félögu auk Smugunnar. Hann á rúmlega 100 þúsund krónu hlut í Hólalaxi, 216 þúsund krónu hlut í Sparisjóði Skagafjarðar og 4500 krónu hlut í Stofnsjóði Kaupfélags Skagfirðinga.

Álfheiður Ingadóttir á hlutabréf að nafnvirði 225 þúsund í Plássinu, félagi um rekstur Hótels Flateyjar.

Þá á Steingrímur rúmlega 200 þúsund krónu hlut í Efnalaug Suðurlands, 50 þúsund krónu hlut í Fjallalambi, 150 þúsund krónu hlut í Seljalaxi og 7900 krónu hlut í Marel.

Björn Valur Gíslason sem skipar þriðja sæti flokksins í Norðausturkjördæmi á hlutabréf í Össuri, Marel, Icelandic Group, Landsbanka Íslands, Eimskipafélagi Íslands og Straumi-Burðarás.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×