Innlent

Síminn stoppar ekki hjá upplýsingafulltrúum

Hjördís Guðmundsson, upplýsingafulltrúi Isavia sem m.a. rekur Keflavíkurflugvöll.
Hjördís Guðmundsson, upplýsingafulltrúi Isavia sem m.a. rekur Keflavíkurflugvöll. Mynd/Stefán Karlsson
„Ég held að það sé vægt til orða tekið að segja að hann hringi stanslaust," segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Isavia, en upplýsingafulltrúar ýmissa fyrirtækja og stofnana hafa staðið í ströngu við að upplýsa umheiminn um stöðu mála vegna eldgossins í morgun.

„Það eru erlendir fjölmiðlar allstaðar að sem eru að hringja og vilja vita hvernig staðan er," segir Hjördís. Eins og fram hefur komið var loftrýminu umhverfis Keflavíkurflugvöll lokað klukkan hálfníu í morgun, en miðað við síðustu spár um gjóskudreifingu er ólíklegt að hann opni að nýju í dag.

„Það er oft erfitt þegar maður er að svara þessum aðilum og er að reyna að tala um loftrýmið, þá eru margir sem halda að hér gangi allir með öskugrímur og sjái ekki út um augun. Ég reyni allt sem ég get til að láta fólk úti í heimi vita að það sé ekki þannig. Hér sé sól og gott veður og engin hætta á ferð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×