Innlent

Tollvörðurinn íhugar skaðabótamál vegna gæsluvarðhalds

Hjörtur Hjartarson skrifar
Efnin komu til landsins í pósti.
Efnin komu til landsins í pósti.

Tollvörður sem sat í einangrun í fjórar vikur vegna gruns um aðild að fíkniefnainnflutningi, íhugar að höfða skaðabótamál á hendur ríkinu vegna vistarinnar. Sjö aðilar voru ákærðir vegna málsins í gær og var tollvörðurinn ekki þar á meðal.

Mennirnir sem ákærðir voru í málinu eru grunaðir um að hafa reynt að smygla til landsins hátt í tuttugu kílóum af amfetamíni og einum komma sjö lítra af amfetamínbasa. Sex karlmenn voru í janúar og febrúar úrskurðaðir í gæsluvarðhald og var tollvörðurinn þar á meðal. Hann var í gæsluvarðhaldi í fjórar vikur og sætti einangrun allan þann tíma. Sjö menn voru síðan ákærðir í gær vegna málsins og er tollvörðurinn ekki þar á meðal. Ómar Örn Bjarnþórsson, lögmaður tollvarðarins staðfesti í samtali við fréttastofu í dag að til greina komi að fara í skaðabótamál við ríkið á grundvelli þess að hann hafi mátt dúsa í einangrun að ósekju.

Ekki liggur fyrir hversu há bótakrafa verður ef farið verður í mál. Tollvörðurinn var leystur frá störfum tímabundið eftir að hann var handtekinn. Snorri Olsen, tollstjóri sagði í samtali við fréttastofu í dag að ákvörðun um hvort tollvörðurinn hefji störf hjá embættinu á ný, liggi ekki fyrir. Í næstu viku verði kallað eftir gögnum um málið frá rannsóknarlögreglunni. Í kjölfarið verði framtíð tollvarðarins hjá embættinu ákveðin.

Í febrúar síðastliðnum féll dómur í máli konu sem sat í gæsluvarðhaldi í 117 vegna gruns um aðild að smygli á 20 lítrum af amfetamínbasa. Hún neitaði sök allan tímann og á endanum þótti sannað að framburður hennar var réttur. Í Héraðsdómi Reykjavíkur var ríkið dæmt til að greiða konunni bætur upp á tæpar tvær milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×