Menning

Gleði, gaman, matur og vísindi í Vatnsmýrinni

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Vatnsmýrin er ævintýraland fyrir unga sem aldna.
Vatnsmýrin er ævintýraland fyrir unga sem aldna. Mynd/Magnús Helgason/Norræna húsið
Þetta er í þriðja sinn sem við höldum Vatnsmýrarhátíð,“ segir Ilmur Dögg Gísladóttir, kynningar- og verkefnastjóri hjá Norræna húsinu. „Hátíðin var fyrst haldin 2011 og aftur 2012 en í fyrra datt hún út því þá vorum við að undirbúa sirkushátíðina.“



Vatnsmýrarhátíðin er haldin að frumkvæði Norræna hússins í samstarfi við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafnið og þetta er í fyrsta sinn sem viðburðir fara einnig fram í Háskólabíói og í Þjóðminjasafninu. „Markmiðið með hátíðinni er að vekja athygli á svæðinu í kringum Norræna húsið, þannig að mjög margir viðburðir fara fram utan dyra, en það eru einnig atriði í nánast öllum rýmum hússins, auk Háskólabíós og Þjóðminjasafnsins. Það verður opnuð hér stór sýning á vegum Listar án landamæra klukkan 15, ungskáld lesa upp við píanóleik inni í salnum þannig að það má segja að við séum með opið hús.“



Flest atriði hátíðarinnar fara þó fram utandyra við Norræna húsið. Gestir eru hvattir til að koma á hjólum og verður Dr. Bæk á staðnum til að yfirfara hjólin og athuga hvort þau séu nú ekki tilbúin í sumarið. Skottmarkaður er á bílaplani Norræna hússins og hefst hann klukkan 12.00. Nýr veitingastaður opnar á næstu vikum í Norræna húsinu og gestir munu geta fengið nasaþefinn af staðnum sem verður opinn í fyrsta sinn á morgun og verða kaffiveitingar til sölu. Einnig verður hinn nýi rekstraraðili veitingarstaðarins, Sveinn Kjartansson matreiðslumeistari og sjónvarpskokkur, með „Fisk í dag“-þema úti við gróðurhús Norræna hússins frá klukkan 12.30 til 13.30 og verða ungir hjálparkokkar úr samnefndum þáttum honum til halds og trausts.



Á Vatnsmýrarhátíðinni býðst gestum einnig að taka þátt í einu útbreiddasta vísindaverkefni heims sem felst í því að undir leiðsögn verða tepokar grafnir í jörð víðs vegar í kringum Norræna húsið til að kanna hve hratt þeir brotna niður. „Eftir þrjá mánuði munum við grafa þá aftur upp, vega og mæla og senda niðurstöðurnar til háskólans í Utrecht í Hollandi þar sem þær verða nýttar við rannsóknir á loftslagsbreytingum,“ útskýrir Ilmur.



Allar upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má finna á heimasíðu Norræna hússins norraenahusid.is.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×