Bílar

Toyota hættir framleiðslu FJ Cruiser

Finnur Thorlacius skrifar
Toyota FJ Cruiser.
Toyota FJ Cruiser.
Síðustu 10 ár hefur Toyota framleitt FJ Cruiser jeppann en mun hætta alfarið framleiðslu hans í ágúst á þessu ári. Bíllinn seldist ágætlega á tímabili í Bandaríkjunum en þegar sala hans dalaði þar verulega var tekin ákvörðun um að draga hann af markaði þarlendis árið 2014.

Hann hefur þó verið í boði á öðrum mörkuðum, meðal annars í Ástralíu og í Japan, þar sem hann er framleiddur. Allar götur frá komu hans árið 2006 hefur þessi bíll verið með 4,0 lítra V6 bensínvél, fimm gíra sjálfskiptingu og fjórhjóladrifi, en bíllinn var þó einnig í boði með drifi á einum öxli og sex gíra beinskiptingu og þannig útbúinn var hann ódýrari.

Toyota FJ Cruiser er byggður á styttri útgáfu Land Cruiser Prado undirvagnsins og er 2.123 kílóa þungur bíll. Hurðir bílsins opnast öfugt, sem kallað hefur verið “suicide doors” uppá enska tungu. Hann er afar óvenjulegur útlits og með svokallað “retro”-útlit, sem er skírskotun í útlit eldri gerðir bíla og var slík framleiðsla ekki óalgeng fyrir um 10 árum síðan en hefur verið á hröðu undanhaldi.






×