Innlent

Iðgjald vátrygginga gæti hækkað vegna tíðari og verri flóða

Sighvatur Jónsson skrifar
Fjórðungur af kostnaði tjóna hjá Náttúruhamfaratryggingum Íslands undanfarin þrjátíu ár er vegna atburða sem tengjast loftslagi. Byggingarverkfræðingur hjá stofnunni segir að ef flóð verða tíðari og alvarlegri gæti þurft að hækka iðgjald vátrygginga.

Loftslagsráð var skipað fyrir ári. Hlutverk þess er að veita stjórnvöldum aðhald með ráðgjöf varðandi stefnu í loftslagsmálum. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir loftslagsbaráttuna tvíþætta, annars vegar snýr hún að áætlunum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda og hins vegar að aðlögun að loftslagsbreytingum.

„Við munum þurfa að lifa líka með einhverjum afleiðingum af þeim loftslagsbreytingum sem þegar hafa orðið og munu verða. Þá er mikilvægt að samfélagið sé tilbúið til að aðlagast slíkum breytingum í framtíðinni,“ segir ráðherrann.

Ísland er eitt fárra landa í vestanverðri Evrópu sem hefur ekki sett saman aðlögunaráætlun vegna loftslagsbreytinga.

„Þá hef ég falið loftslagsráði að leiðbeina stjórnvöldum um hvernig eigi að vinna þessa áætlun þannig að vinnan er komin í gagn sem betur fer,“ segir Guðmundur Ingi.

Langflest tjón tengjast loftslagi

„Það skiptir öllu máli að allir sem hafa hagsmuni og hlutverk í þessu samhengi tali saman og hjálpist að við að meta hagkvæmni þess að ráðast í einhverjar aðgerðir,“ segir Jón Örvar Bjarnason, byggingarverkfræðingur hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands.

Náttúruhamfaratrygging Íslands skoðar hvaða afleiðingar loftslagsbreytingar næstu áratugi geta haft á kostnað og umfang tjóna.

„Ef við skoðum þrjátíu ára sögu þá eru um það bil 25% af tjónskostnaðinum vegna atburða sem tengjast loftslagi,“ segir Jón Örvar.

Þegar litið er til fjölda atburða er niðurstaðan sú að 95% af tjónum tengjast loftslagi.

„Það er ekkert útilokað í framtíðinni ef flóð til dæmis aukast og verða tíðari og alvarlegri að þá þurfum við að hækka iðgjald vátryggingarinnar til að standa straum af tjónskostnaðinum,“ segir hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×