Innlent

Borgin sigrar sólarlottóið

Birna Dröfn Jónasdóttir skrifar
Búast má við áframhaldandi sól í Reykjavík.
Búast má við áframhaldandi sól í Reykjavík. Fréttablaðið/Anton Brink
„Í fyrra var óvenju lítil sól í júní en nú byrjar sumarið mjög sólríkt hérna á Suður- og Vesturlandi,“ segir Haraldur Eiríksson, vaktaveðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. „Það er svolítið lottó hvað það er mikil sól í maí og júní. Í fyrra var hún ekki mikil en nú lítur þetta betur út.“

Ekki eru allir jafn heppnir með veður og íbúar á höfuðborgarsvæðinu og segir Haraldur að búast megi við rigningu og slyddu á Austurlandi í byrjun vikunnar, jafnvel snjókomu til fjalla. Þegar líða tekur á vikuna fari þó að birta til fyrir austan. „Þetta er bara rigning og slydda svo hlýnar aðeins eftir miðja vikuna og þá er sumarið vonandi að koma fyrir austan.“

Haraldur segir að borgarbúar geti búist við betra veðri í sumar en þeir fengu í fyrra og ástæðuna segir hann einfalda. „Ég vænti þess að þetta sumar verði skárra en í fyrra því ég held að það geti ekki orðið verra, svo einfalt er það.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×