Innlent

Pétur Jóhann biðst afsökunar á myndbandinu

Sylvía Hall skrifar
Pétur Jóhann Sigfússon hefur beðist afsökunar.
Pétur Jóhann Sigfússon hefur beðist afsökunar. Vísir

Skemmtikrafturinn Pétur Jóhann Sigfússon hefur birt stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann biðst afsökunar á myndbandi sem Björn Bragi Arnarson birti á Instagram. Hann segist hafa lært af málinu og þeirri umræðu sem fylgdi í kjölfarið.

„Myndband sem var tekið var af mér í einkasamkvæmi um síðustu helgi hefur farið sem eldur í sinu á samfélagsmiðlum. Ég biðst einlægrar afsökunar á framgöngu minni í þessu myndbandi og þykir leitt að hafa sært. Það var ekki ætlun mín að særa,“ skrifar Pétur.

Myndbandið vakti hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum og ritaði Sema Erla Serdar langa færslu á Facebook þar sem hún fordæmdi myndbandið og hegðun þeirra sem þar voru og hlógu með.

Sagði hún myndbandið skýrt dæmi um rasíska hegðun sem væri enn rótgróin í íslensku samfélagi.

Í kjölfarið fór af stað mikil umræða um fordómafullt „grín“ og þá fordóma sem fólk af erlendum uppruna verður fyrir hér á landi. Ein þeirra sem tjáði sig um þá var hin 21 árs gamla Díana Katrín Þorsteinsdóttir, sem er fædd og uppalin á Íslandi.

Í viðtali við kvöldfréttir Stöðvar 2 í gær sagði Díana slíkt vera algengt hér á landi. Hún hafi alla tíð upplifað fordóma og þekki marga í sömu stöðu.

„Ég hataði að vera tælensk. Mér fannst það bara ógeðslegt og byrjaði að hafa mikla fordóma fyrir því að ég væri tælensk. Hætti að vilja sjást með mömmu minni í almenningi því ég var svo hrædd um að það yrði gert grín að henni líka. Ég hélt að ég væri að vernda hana en ég missti því tengsl við mömmu mína,“ sagði Díana Katrín.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×