Innlent

Sjá ekki fram á að opna vegi fyrir umferð fyrr en á morgun

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Enn eru Flateyrarvegur og vegurinn á milli Súðavíkur og Ísafjarðar lokaðir vegna snjóflóðahættu.
Enn eru Flateyrarvegur og vegurinn á milli Súðavíkur og Ísafjarðar lokaðir vegna snjóflóðahættu. Vísir/SAMMI

Enn geisar norðaustan stormur á Vestfjörðum með skafrenningi og éljagangi. Skyggni er víðast hvar slæmt og ekki hefur náðst að opna marga fjallvegi í umdæminu. Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á norðanverðum Vestfjörðum og hættustig á Ísafirði.

Enn eru Flateyrarvegur og vegurinn á milli Súðavíkur og Ísafjarðar lokaðir vegna snjóflóðahættu. Lögreglan á Vestfjörðum býst ekki við að opna vegina fyrir umferð fyrr en á morgun. Raunar er víðast hvar lokað eða ófært á norðanverðum Vestfjörðum.

Ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands réði starfsmönnum Terra á Ísafirði og Hampiðjunnar frá því að vera í húsnæði fyrirtækjanna. Eins hefur þótt öruggara að hafa sorpmótttökuna í Funa í Skutulsfirði lokaða.

Þá var íbúum á einum sveitabæ í Bolungarvík ráðlagt að dvelja á öruggari stað meðan ástandið varir.

Frá því á föstudag hefur meira og minna verið lokað fyrir umferð um Flateyrarveg. Fjöldi íbúa á Flateyri, þar sem fannfergi er þegar gríðarlegt, er fastur heima hjá sér og nú er svo komið að borið hefur á vöruskorti.

Katrín María Gísladóttir, kennari á Flateyri sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að íbúar á Flateyri hafi fyrir helgi búið sig vel undir óveðrið og að flestir hafi ráðist í stórinnkaup á föstudag.

Ófærð og lokanir hafi þó varið mun lengur en íbúar hafi almennt reiknað með. Björgunarsveitin hefur komið fólki á milli staða og nauðsynjavörum til fólksins. Katrín segir samheldni þorpsbúa lykilatriði á tímum sem þessum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×