Innlent

Stormur, slydda og jafn­vel snjó­koma í kortunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það kólnar norðanlands í kvöld og má því búast við slyddu og jafnvel snjókomu á fjallvegum.
Það kólnar norðanlands í kvöld og má því búast við slyddu og jafnvel snjókomu á fjallvegum. Veðurstofa Íslands

Lægðin sem gekk yfir landið í gær stjórnar áfram veðrinu í dag og á morgun, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Lægðin er skammt norður af Melrakkasléttu, hreyfist lítið í dag og beinir til okkar svalara lofti. Á morgun þokast hún svo austur á bóginn, grynnist heldur og þá dregur úr vindi.

Í dag verður vestanátt, víða 8-13 metrar á sekúndu á austurhelmingi landsins og slær þar í storm á stöku stað, einkum með norðausturströndinni og í vindstrengjum við fjöll.

Þá verður rigning víða norðanlands og kólnar með deginum. Undir kvöld eru því líkur á slyddu eða snjókomu á fjallvegum á þeim slóðir. Skúrir sunnan- og vestanlands en þurrt á Austfjörðum. Hiti á bilinu 7-14 stig, hlýjast austantil en 2-7 stig á norðanverðu landinu í kvöld.

Veðurhorfur á landinu:

Á þriðjudag:

Norðlæg átt 8-15 m/s. Bjart með köflum, en dálítil rigning á láglendi norðan- og austanlands. Hiti 2 til 7 stig, en 8 til 13 stig sunnantil á landinu.

Á miðvikudag:

Fremur hæg breytileg átt og víða bjartviðri, en norðvestan 8-15 m/s norðaustantil framan af degi. Vaxandi suðaustanátt og fer að rigna um vestanvert landið um kvöldið. Hiti 6 til 13 stig, hlýjast vestanlands.

Á fimmtudag:

Suðaustan og austan 10-18 m/s, hvassast norðvestantil. Rigning í flestum landshlutum, en úrkomulítið á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti 7 til 13 stig.

Á föstudag:

Austan og norðaustan 13-20 m/s, hvassast á Vestfjörðum, og rigning um norðanvert landið. Fremur hæg norðlæg átt og bjart með köflum sunnantil. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast syðst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×