Innlent

Samkomulag SA og ASÍ um breytingar á kjarasamningi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, og Sólveig Jónsdóttir, formaður Eflingar, við fyrri undirritun kjarasamninga hjá ríkissáttasemjara.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, og Sólveig Jónsdóttir, formaður Eflingar, við fyrri undirritun kjarasamninga hjá ríkissáttasemjara. Vísir/Vilhelm

Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa gert breytingar á kjarasamningi aðila um lífeyrismál, en samningurinn er stofnskjal og bakhjarl lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ.

Þar segir að breytingarnar felist í umgjörð fyrir hugsanlega afturköllun tilnefningaraðila á umboði stjórnarmanna, auk skerpingar ákvæða um sjálfstæði stjórnarmanna í lífeyrissjóðum. Sjálfstæði stjórnarmanna sé áréttað með eftirfarandi viðbótargrein í kjarasamninginn:

Stjórnarmenn skulu rækja skyldur sínar af heilindum, hafa möguleika á að verja þeim tíma til stjórnarstarfa sem slík seta krefst og taka sjálfstæðar ákvarðanir í hverju máli fyrir sig.

Tvö ákvæði um hugsanlega afturköllun tilnefningaraðila á umboði stjórnarmanna bætast við samninginn og varða formlegt ferli og aðkomu fulltrúaráðs lífeyrissjóða að þeirri ákvörðun:

Tilnefningaraðila er heimilt að afturkalla umboð stjórnarmanns á grundvelli laga og samþykkta lífeyrissjóðs. Tilkynna skuli stjórn sjóðsins með formlegum hætti rökstudda ákvörðun með tilvísun í viðeigandi lagaákvæði, samþykktir og reglur.

Afturkalli tilnefningaraðili umboð stjórnarmanns skal fulltrúaráð staðfesta þá ákvörðun ásamt tilnefningu nýs stjórnarmanns fram að næsta ársfundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×