Veður

Norðan­átt með éljum norðan­til en þurrt fyrir sunnan

Atli Ísleifsson skrifar
Frost verður á bilinu eitt til fjórtán stig þar sem kaldast verður inn til landsins.
Frost verður á bilinu eitt til fjórtán stig þar sem kaldast verður inn til landsins. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan spáir norðlægri átt í dag, tíu til átján metrum á sekúndu, með éljum fyrir norðan en þurrt að kalla um sunnanvert landið.

Frost verður á bilinu eitt til fjórtán stig þar sem kaldast verður inn til landsins. Dregur úr vindi og úrkomu en kólnar í kvöld.

„Gengur í suðvestan átt 8-13 á morgun og stöku él vestantil en bjart að mestu fyrir austan. Frost 1 til 12 stig, kaldast inn til landsins.

Suðvestlæg eða breytileg átt á föstudag með lítilsháttar éljum en þurrt á Austurlandi. Dregur heldur úr frosti. Vaxandi austanátt og bætir í snjókomu syðst seint um kvöldið,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákortið fyrir klukkan 15.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Vestlæg átt, 8-13 m/s og dálítil él um landið vestanvert, en bjart fyrir austan. Frost 1 til 12 stig, kaldast inn til landsins, en dregur heldur úr frosti síðdegis.

Á föstudag: Fremur hæg suðlæg átt og stöku él, en bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Frost 1 til 10 stig. Gengur í austanstrekking með slyddu eða snjókomu á S-verðu landinu um kvöldið og hlýnar.

Á laugardag: Austan- og norðaustanátt og slydda með köflum sunnan- og austantil, stöku él fyrir norðan, en yfirleitt þurrt á Vesturlandi. Frost 2 til 10 stig, en hiti kringum frostmark við suðurströndina.

Á sunnudag: Norðlæg eða breytileg átt og dálítil él á víð og dreif. Frost 2 til 12 stig, kaldast inn til landsins.

Á mánudag: Suðlæg eða breytileg átt, stöku él og frost um allt land. Gengur í suðaustanátt með snjókomu og slyddu sunnanlands um kvöldið og hlýnar þar.

Á þriðjudag: Útlit fyrir austlæga átt með éljum og frosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×