Veður

Fremur vætu­samt á sunnan- og vestan­verðu landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Það verður blautt víða um land í dag.
Það verður blautt víða um land í dag. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan reiknar með að það verði suðlæg og síðar vestlæg átt á landinu og hlýni í bili. Fremur vætusamt verður á sunnan- og vestanverðu landinu, en úrkomuminna á Norðausturlandi.

Á vef Veðurstofunnar segir að á veður fari hlýnandi og verði hitinn fjögur til níu stig síðdegis.

„Á morgun verður suðvestlæg átt ríkjandi, skúrir á vesturhelmingi landsins en lengst af þurrt eystra. Hiti víða 3 til 7 stig.

Á fimmtudag er svo útlit að kaldara loft úr norðri sæki að norðurströndinni með éljum, en líkur á björtu veðri sunnantil á landinu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Suðvestan 5-13 m/s og skúrir, en bjartviðri á Norðaustur- og Austurlandi. Hægari vindur síðdegis. Hiti 2 til 8 stig yfir daginn.

Á fimmtudag: Austlæg eða breytileg átt 3-8, en norðaustan 5-13 um kvöldið. Éljagangur við norðurströndina, annars úrkomulítið. Heldur kólnandi.

Á föstudag: Norðan og norðaustan 8-15 og él, en bjartviðri sunnanlands. Hiti kringum frostmark.

Á laugardag: Norðaustanátt með rigingu eða slyddu, en þurrt að kalla um landið sunnanvert. Hiti 1 til 8 stig, mildast syðst, en víða næsturfrost.

Á sunnudag: Norðanátt og él, en bjart með köflum syðra. Vægt frost, en víða frostlaust við ströndina.

Á mánudag: Útlit fyrir hægan vind og víða léttskýjað. Fremur kalt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×