Umræðan

Þegar normið blekkir

Eyþór Jónsson skrifar

Fyrir stuttu hélt Stjórnvísi viðburð fyrir verkefnið Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum. Að þessu sinni fengu átján fyrirtæki viðurkenningu. Mér var boðið að halda gestaerindið á þessum viðburði. Mér þótti vænt um það enda get ég kallað mig frumkvöðulinn á bak við Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum og stýrði verkefninu í um áratug þar til ég fól Stjórnvísi og Jóni Gunnari Borgþórssyni að taka við keflinu. Erindið sem ég hélt var um mikilvægi þess að stjórnir læri og festist ekki í normi sem hefur lítið gildi eða virði fyrir stjórn, fyrirtæki eða hagaðila.

Normið verður til

Samkvæmt stofnanahagfræði geta reglur og kúltúr orðið til þess að skapa eitthvað norm sem félög leitast til að gera að gildum sínum og starfsumgjörð. Til verður svo “best-practice” í aðferðafræði sem byggir á þessu normi. Þetta er allt gott og blessað við aðstæður sem miða að stöðugleika, þar sem tilgangurinn er að draga úr óvissu. Lengi vel, og kannski að miklu leyti enn þá, var þetta merki um góða stjórnun. Fyrirtæki og stofnanir væru að finna tilgang sinn, aðferðafræði og jafnvel framtíðarsýn. "Best-practice" í samhengi við normið var til fyrirmyndar.

Í stofnanafræðinni er áhugavert hugtak, sem tók mig mörg ár að fara rétt með, sem er “isomorphism” og er stundum þýtt sem “samsvörun” á íslensku. Hugmyndin á bak við hugtakið er að normið sem verður til á einum stað verður öðrum stofnunum til eftirbreytni. Stofnanir læra hver af annarri þannig að norm sem verður til á einum stað verður norm og uppspretta “best-practice” í stærra mengi stofnana eða samfélags. Auðvitað leiða ný lög, almennar reglur og viðmið oft til þess að svipað norm verður til á mörgum stöðum í einu og samhljómurinn magnast svo þegar yfirflæði þekkingar og hegðunar eykst. Stofnanafræðinni hefur ekki tekist að útskýra mjög vel hvernig þetta gerist nákvæmlega en í stórum dráttum á þetta að gerast með þessum hætti.

Siðameistarinn

Við vorum með ráðstefnu EURAM - European Academy of Management í Bath í Bretlandi í sumar. Ég þekkti ekki sögu Bath að öðru leyti en að rithöfundurinn Jane Austen hefði búið þar um skeið og að það væru frægar minjar um rómanska baðmenningu í bænum. Ég hafði hins vegar ekki heyrt um Richard “Beau” Nash fyrr en í sumar. Richard “Beau” Nash kom til Bath 1705 þegar Bath var farið að vekja athygli fyrir baðmenningu. Það var hins vegar lítil hámenning í Bath á þeim tíma. Nash fékk hlutverk sem “Master of Ceremonies” í Bath og innleiddi siðareglur, venjur og umbætur í bænum sem áttu að ýta undir almenna kurteisi, mannasiði, tísku og hámenningu. Þessar siðareglur og umbætur lögðu grunninn að því að Bath varð einn vinsælasti staður Bretlands á 18. öldinni. Nash fékk viðurnefnið “Kóngurinn í Bath” og leiddi þessi siðbyltingu í Bath í um fjóra áratugi. Bretar (sem sögðu mér söguna) vilja meina að áhrif Nash hafi verið slík að þau hafi ekki bara breytt Bath heldur Bretlandi og útskýri af hverju Bretar enn í dag eru yfirleitt einstaklega kurteisir í orði og athöfnum. Richard “Beau” Nash bjó til nýtt norm.

Saga Nash sem meistari siðvenjunnar minnir okkur á það að siðareglur geta verið af hinu góðu ef það tekst að innleiða þær með réttum hætti.

Það er ekki laust við að margir myndu vilja sjá Richard “Beau” beita sér hér á landi og víðar í dag þegar skortur er á almennri kurteisi, siðferði og siðvenjum. Hlutverk Nash í Bath var að einhverju leyti að koma böndum á fjárhættuspil og veðmál sem voru farin að hafa verulega óæskileg áhrif á samfélagið. Fjölskyldufeður eyddu ærunni í veðmál og dæmdu fjölskyldurnar til lífs á götunni. Sjálfsmorð og einvígi fjárhættuspilara sem leiddu til dauða voru algeng. Þetta verkefni Nash tókst hins vegar vel enda handstýrði hann að einhverju leyti hverjir fengu að taka þátt í fjárhættuspilum. Veðmál voru svo gerð ólögleg í Bretlandi árið 1740.[1]

Saga Nash sem meistari siðvenjunnar minnir okkur á það að siðareglur geta verið af hinu góðu ef það tekst að innleiða þær með réttum hætti. Það getur haft veruleg áhrif á hegðun ef það er hægt að vísa í einhvern sáttmála þar sem siðferðisleg viðmið eru útskýrt og útfærð. Sterk menning byggir líka yfirleitt á normum sem búið er að skapa sem jafnvel endurspeglast í ímynd félag og hvernig fyrirtæki starfa á markaði. Þannig geta norm, eins og í tilviki Bath í Bretlandi, verið ástæða virðisköpunar og framfara.

Svona gerum við þetta hérna!

Það eru til margar góðar sögur af því hvernig tilkoma á nýjum reglum og venjum hefur skapað norm sem hefur hjálpað fyrirtækjum, stofnunum og samfélögum. Sagan af Richard “Beau” Nash er ekkert einsdæmi. Sumir vilja meina að “normið” réttlæti trúarbrögð sem ýti undir góða hegðun og siðvenjur. Stundum virðist normið hafa fest sig svo rækilega í sessi að það er yfir gagnrýni hafið og til verða setningar eins og „svona gerum við þetta hérna!“

Þegar normið hefur fest sig í sessi verður það oft „veruleikinn“ í huga þeirra sem eru hluti af stofnun eða samfélagi. Það verður þá erfitt að breyta frá norminu. Þrátt fyrir að norm geti verið af hinu góða, getur það líka orðið letjandi og jafnvel skaðlegt ef það festist í sessi án gagnrýni. Þegar norm verður svo fastmótað að það er yfir gagnrýni hafið, verða orð eins og „svona gerum við þetta hérna“ að slagorði. Þetta getur hindrað stofnanir og fyrirtæki í að aðlagast breytingum og þróast í takt við nýjar kröfur markaðarins eða samfélagsins.

Stundum virðist normið hafa fest sig svo rækilega í sessi að það er yfir gagnrýni hafið og til verða setningar eins og „svona gerum við þetta hérna!“

Þegar fyrirtæki og stofnanir festast í gömlum normum og fylgja stöðluðum ferlum án tillits til þess hvort þau henti enn þá eða séu yfir höfuð siðleg, getur það leitt til þess að þau missa sjónar á þeim raunveruleika sem fyrirtækið býr við.

Stjórnarhættir úr takti

Eitt af því sem ég vildi vekja athygli á þegar við vorum að ræða góða stjórnarhætti í samhengi við fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum er hvað kvik hæfni og lærdómur er mikilvægur fyrir þróun á góðum stjórnarháttum. Normið í stjórnarháttum var upphaflega skapað á röngum forsendum og eru að einhverju leyti viðbrögð við krísum sem hafa orðið í tengslum við fyrirtæki. Félagarnir Andrew Berle og Gardiner Means lögðu að mörgu leyti grunninn að faglegri umræðu um stjórnarhætti árið 1932 með bókinni The Modern Corporation and Private Property. Í kjölfarið fylgdu fræðimenn sem þróuðu umboðskenninguna sem fræðilegan grundvöll umræðu um stjórnarhætti. Það sem gerðist í þessari umræðu er að stjórnarhættir voru fyrst og fremst hugsaðir og þróaðir sem eftirlitskerfi. 

Án þess að fara djúpt í þá umræðu þá er það afleit hugmyndafræði þar sem stjórnir geta í fæstum tilvikum verið sú eftirlitsstofnun sem þeim er ætlað að vera. En það sem gerðist þá líka er að meginhlutverk stjórna var þá ekki að stýra og stefna fyrirtækjum til framtíðar. Yfirleitt væri æskilegt að stjórnir hefðu það hlutverk á sinni könnu. Ýmislegt hefur líka breyst hvernig við skiljum viðfangsefni stjórnar, til dæmis aukin áhersla á hagaðila, tækni og tilgang fyrirtækja. 

Stjórnir þurfa því að leggja áherslu á stöðuga endurskoðun á starfsháttum sínum og tryggja að þær séu í takt við breyttar þarfir og kröfur. Stundum þarf að kveikja ljós í bergmálshellinum.

Margir eru hins vegar enn fastir í löngu úreltu módeli stjórnarháttakerfis sem var einnig misskilningur í upphafi (en of löng saga að fara í hér en þá umræðu má finna í Legitimacy of Corporate Governance). Vandmálið við að festast í normi sem lítur á stjórnir sem eftirlitsstofnanir er að það getur orðið verulegur þröskuldur framþróunar fyrirtækja þegar stjórnir kunna ekki að læra og aðlagast nýjum aðstæðum.

Varist bergmálshellirinn

Það er mikilvægt fyrir stjórnir að vera meðvitaðar um það norm sem þær starfa eftir en jafnframt að vera opnar fyrir breytingum þegar aðstæður krefjast þess. Normið má ekki verða bergmálshellir. Við megum ekki gleypa normið hrátt án gagnrýni, heldur þurfum við að skoða það í samhengi við innri og ytri aðstæður fyrirtækja og samfélagsins í heild. Aðeins þannig getum við tryggt að normið vinni með okkur en ekki á móti okkur. Stjórnir þurfa því að leggja áherslu á stöðuga endurskoðun á starfsháttum sínum og tryggja að þær séu í takt við breyttar þarfir og kröfur. Stundum þarf að kveikja ljós í bergmálshellinum!

Höfundur er forseti Akademias. 

[1] Sjálfur hætti hann hins vegar aldrei að stunda veðmál, sem gengu lengst af vel enda lifði hann eins og kóngur. Undir lokin hafði hann hins vegar veðjað frá sér aleiguna og var kominn á götuna þegar Bath bærinn bjargaði honum í þakkarskuld fyrir framlag hans til bæjarins og borgaði honum lífeyrir til þess að lifa sinn síðasta dag í Bath í mannsæmd.




Umræðan

Sjá meira


×