Menning

Portus hrósað í Feneyjum

Byggingarlist Íslenski sýningarskálinn í Feneyjum. Íslenski hraunsteinninn og ljósaveggur Ólafs Elíassonar sem hann hannaði sérstaklega fyrir skálann og varpar síbreytilegri íslenskri sumarbirtu um skálann.
Byggingarlist Íslenski sýningarskálinn í Feneyjum. Íslenski hraunsteinninn og ljósaveggur Ólafs Elíassonar sem hann hannaði sérstaklega fyrir skálann og varpar síbreytilegri íslenskri sumarbirtu um skálann. mynd/Portus Group
Íslenski sýningarskálinn á Feneyja-tvíæringnum um byggingarlist og borgarskipulag hlaut á miðvikudag sérstaka viðurkenningu dómnefndar þegar Gullna ljónið var afhent við hátíðlega athöfn.

Athöfnin fór fram í Teatro Malibran leikhúsinu í Feneyjum en í dómnefnd voru Richard Sennett, Amyn Aga Khan, Anthony Gormley og Zaha Hadid. Verðlaunum til sýningarskála var skipt í þrjá flokka, sýningarskála borga, sýningarskála þjóða og sýningarskála ákveðinna þróunarverkefna í borgarskipulagi.

Að þessu sinni hlaut Bogotá í Kolumbíu Gullna ljónið fyrir sýningarskála borga, danski sýningarskálinn hlaut Gullna ljónið fyrir sýningarskála þjóða og Javier Sanchez/Higuera+Sanches fyrir þróunarverkefnið "Brazil 44" í Mexíkóborg fyrir sýningarskála ákveðinna þróunarverkefna. Að auki hlutu þrír sýningarskálar sérstakar viðurkenningar, þar á meðal íslenski sýningarskálinn.

Íslenski sýningarskálinn hlaut viðurkenningu fyrir "framúrskarandi framsetningu og samspil listamanns og arkitektastofu, Ólafs Elíassonar og Teiknistofu Hennings Larsen". Hinir voru japanski sýningarskálinn og sýningarskáli Makedóníu.

Ísland tók í fyrsta sinn þátt í Feneyja-tvíæringnum um byggingarlist og borgarskipulag í ár. Opnaði Dorrit Moussaieff forsetafrú íslenska skálann fyrir hönd menntamálaráðherra og borgarstjórans í Reykjavík  og verður hann opinn til loka næstu viku þegar tvíæringnum lýkur.

Á Feneyjatvíæringnum í ár eru 145 sýningarskálar, þar af 48 sýningarskálar þjóða. Geta íslensku þátttakendurnir því verið sáttir við sinn hlut. Í sýningarskálanum er tónlistar- og ráðstefnuhúsið við Austurhöfn í Reykjavík kynnt ásamt tilheyrandi skipulagi og uppbyggingu í miðborginni, sem er í samræmi við yfirskrift tvíæringsins í ár, "Borgir, byggingalist og samfélag". Hönnun hússins, sem unnin er af arkitektastofunni Hennings Larsen Tegnestue í samstarfi við Batteríið og listamanninun Ólaf Elíasson, er í brennidepli " en einnig er lögð áhersla á að kynna Reykjavík sem menningar- og ráðstefnuborg og Ísland sem vænlegan kost þeirra sem skipuleggja ráðstefnur og ferðir.

Feneyjatvíæringurinn er einhver mikilvægasti vettvangurinn í heimi til kynningar á byggingalist en hann sækja að jafnaði meira en 100.000 manns hverju sinni, arkitektar, arkitektanemar, listamenn, blaðamenn og áhugamenn um hið byggða umhverfi.

Kynning á tónlistar- og ráðstefnuhúsinu erlendis hófst sl. vor með samvinnuverkefni Höfuðborgarstofu og Ferðamálastofu og þátttaka Íslands í Feneyja-tvíæringnum felur í sér afar mikilvægt tækifæri til að vekja alþjóðlega athygli á þessu metnaðarfulla verkefni.

Það var eignarhaldsfélagið Portus hf., sem ríkið og Reykjavíkurborg hafa gert samning við um að byggja og reka tónlistar- og ráðstefnuhúsið, sem annaðist undirbúninginn í samráði við Austurhöfn TR, menntamálaráðuneytið og Reykjavíkurborg og skiptist kostnaðurinn við verkefnið á milli þeirra. Sýninga­rstjóri var Þórhallur Vilhjálmsson markaðsstjóri Eignarhaldsfélagsins Portus.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×