Viðskipti erlent

Hráolíuverð nálægt 62 dölum á tunnu

Heimsmarkaðsverð á hráolíu fór nálægt 62 dölum á tunnu á markaði í New York í Bandaríkjunum í dag en olíubirgðir í Bandaríkjunum drógust meira saman á milli vikna en spáð hafði verið. Gert er ráð fyrir að eftirspurn eftir eldsneyti muni aukast þegar Bandaríkjamenn verða á faraldsfæti í sumar og er því spáð nokkurri hækkun á eldsneytisverði eftir því sem líður á árið.

Í vikulegri skýrslu bandaríska olíumálaráðuneytisins, sem birt var í gær, yfir breytingar á olíubirgðastöðu vestanhafs, kemur fram að hráolíubirgðir drógust saman um 4,85 milljónir tunna á milli vikna. Þetta er tvöfalt meira en gert hafði verið ráð fyrir en olíubirðir Bandaríkjanna, sem er stærsti eldsneytismarkaður í heimi, nema nú 324,2 milljónum tunna. Þetta er engu að síður 5,8 prósentum yfir ársmeðaltali síðastliðinna fimm ára.

Verð á hráolíu, sem afhent verður í næsta mánuði, hækkaði um 5 sent á markaði í New York í Bandaríkjunum í dag og fór í 61,87 dali á tunnu. Brent Norðursjávarolíua lækkaði hins vegar um 1 sent og fór í 62,49 dali á tunnu á markaði í Lundúnum í Bretlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×