Viðskipti erlent

Barclays og ABN Amro í samrunaviðræðum?

Fjölmiðlar í Bretlandi segja bankastjórn hins breska Barclays banka hafa átt í viðræðum við stjórn ABN Amro, eins stærsta banka Hollands. Sé horft til þess að bankarnir renni saman í eina sæng. Verði það raunin verður til risabanki með markaðsverðmæti upp á jafnvirði rúmra 10.400 milljarða íslenskra króna og 47 milljón viðskiptavini um allan heim.

Breska blaðið Sunday Telegraph segir stjórnir bankanna hafa rætt málin í febrúar. En stjórnir beggja banka neita að staðfesta fregnina.

Að sögn Sunday Times munu vera liðin tvö ár síðan stjórnir bankanna ræddu fyrst um hugsanlegan samruna. Líti stjórn Barclays líta á sig sem riddarann á hvíta hestinum sem komi ABN Amro til hjálpar. Hollenski bankinn hefur átt í nokkrum vandræðum og meðal annars þurft að segja upp starfsfólki og selja eignir og einingar undan fyrirtækjahatti sínum til að hagræða í rekstri. Bankinn hefur stækkað mikið á síðasliðnum árum og vinnur að landvinningum til að stækka markaðshlutdeild sína.

Breska ríkisútvarpið, BBC, vitnar til greinenda, sem telja annað hvort líkur á að ABN Amro veði seldur í einu lagi eða í einingum vegna viðvarandi rekstrarerfiðleika.

Með samruna bankanna opnast Barclays miklir möguleikar vegna þeirra miklu útvíkkunar sem ABN Amro hefur staðið fyrir. Sérstaklega mun Barclays hafa hug á að ná hlutdeild í starfsemi hollenska bankans í Asíu, að mati Sunday Times.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×