Viðskipti erlent

Olíuverð undir 57 dölum á tunnu

Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði nokkuð á helstu fjármálamörkuðum í dag og fór undir 57 bandaríkjadali á tunnu. Ákvörðun Samtaka olíuútflutningsríkja (OPEC) að halda framleiðslukvótum aðildarríkjanna óbreyttum á hlut að lækkun á hráolíuverðinu. Greinendur segja enn óvissu um ástand efnahagsmála í Bandaríkjunum.

OPEC-samtökin ákváðu í kjölfar falls á helstu fjármálamörkuðum í síðustu viku að halda framleiðslukvótum aðildarríkjanna óbreyttum til að koma í veg fyrir harða lendingu vegna samdráttar í efnahagslífi nokkurra landa.

Hráolía, sem afhent verður í næsta mánuði, lækkaði um 23 sent á markaði í Bandaríkjunum í dag og fór í 56,88 dali á tunnu. Verðið hefur ekki verið jafn lágt í einn og hálfan mánuð. Verð á Brent Norðursjávarolíu, sem afhent verður á sama tíma, lækkaði um einungi eitt penní og fór í 60,29 dali á tunnu á markaði í Lundúnum í Bretlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×