Viðskipti erlent

Hráolíuverðið lækkar á heimsmarkaði

Heimsmarkaðsverð á hráolíu fór undir 64 dali á tunnu á markaði í New York í dag eftir að orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna greindi frá því í vikulegri skýrslu sinni að olíuframleiðsla hefði aukist þar í landi í síðustu viku. Þrátt fyrir þetta minnkuðu eldsneytisbirgðir í Bandaríkjunum á milli vikna.

Þetta er 12. vikan í röð samdráttar gætir í eldsneytisbirgðum vestanhafs, að sögn fréttaveitunnar Bloomberg.

Olíuvinnslustöðvar juku framleiðslu sína um hálft prósent á milli vikna og jukust hráolíubirgðirnar um 1,17 milljónir tunna við það. Þetta er engu að síður nokkuð undir spám greinenda sem gerðu ráð fyrir aukningu upp á 1,5 milljónir tunna.

Verð á hráolíu, sem afhent verður í næsta mánuði, lækkaði um 73 sent á markaði í New York og fór í 63,67 dali á tunnu. Verð á Brent Norðursjávarolíu lækkaði á sama tíma um 43 sent á markaði í Lundúnum í Bretlandi og fór verðið á svartagullinu í 66,57 dali á tunnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×