Handbolti

Drama í Drammen: Þórir tryggði Íslandi jafntefli

Logi Geirsson fór á kostum í dag
Logi Geirsson fór á kostum í dag
Íslenska landsliðið í handknattleik náði fræknu 31-31 jafntefli við Norðmenn í Drammen í undankeppni EM.

Íslenska liðið hafði á brattann að sækja lengst af í leiknum og var undir 16-13 í hálfleik og var mest sex mörkum undir í fyrri hálfleiknum.

Leikur liðsins batnaði mikið í þeim síðari bæði í vörn og sókn og náðu strákarnir að jafna leikinn í fyrsta sinn þegar síðari hálfleikurinn var nákvæmlega hálfnaður.

Ísland náði mest tveggja marka forskoti (25-23) á 19. mínútu síðari hálfleiks, en þá skoruðu Norðmenn fjögur mörk í röð og sigu fram úr.

Mikil dramatík var í leiknum undir lokin þar sem íslenska liðið náði að jafna með því að skora tvö síðustu mörkin. Það var Þórir Ólafsson sem skoraði bæði mörkin, það fyrra þegar hálf mínúta var eftir og jafnaði svo þegar nokkrar sekúndur lifðu leiks.

Norðmenn fóru strax í hraða sókn sem var stöðvuð af íslenska liðinu og enduðu átökin með því að Vignir Svavarsson og Erlend Marmelund fengu rautt spjald.

Íslenska liðið var sem kunnugt er undirmannað í leiknum í dag og vantaði marga sterka leikmenn frá því á ÓL í Peking í sumar. Ólafur Stefánsson, Alexander Petersson, Sigfús Sigurðsson og Snorri Steinn Guðjónsson voru ekki með í dag og þá meiddist Guðjón Valur Sigurðsson í upphafi síðari hálfleiks og kom ekki meira við sögu. Hann sneri sig á ökkla en meiðsli hans virtust þó ekki mjög alvarleg.

Ísland og Noregur eru því efst og jöfn í riðlinum með 3 stig hvort.

Logi Geirsson var í sérflokki í sóknarleiknum hjá íslenska liðinu og skoraði 13 mörk þar af fjögur úr vítum, en sóknarleikur íslenska liðsins riðlaðist nokkuð þegar hann var tekinn úr umferð í síðari hálfleik.

Vignir Svavarsson og Ingimundur Ingimundarson stóðu vaktina líka mjög vel í vörninni í síðari hálfleik eftir að Sverre Jakobsson hafði fengið tvær brottvísanir í byrjun síðari hálfleiks.

Mörk Íslands í dag:

Logi Geirsson 13, Arnór Atlason 6, Þórir Ólafsson 3, Ásgeir Örn Hallgrímsson 2, Guðjón Valur Sigurðsson 2, Róbert Gunnarsson 2, Einar Hólmgeirsson 1, Vignir Svavarsson 1 og Ragnar Óskarsson 1.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×