Handbolti

Róbert: Frábært að fá annað tækifæri gegn Fram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Róbert Gunnarsson í leik með íslenska landsliðinu.
Róbert Gunnarsson í leik með íslenska landsliðinu.
Róbert Gunnarsson og félagar í þýska úrvalsdeildarliðinu Gummersbach drógust í morgun gegn Fram í þriðju umferð EHF-bikarkeppninnar gegn Fram, gamla liði Róberts.

Gummersbach og Fram voru saman í riðli í Meistaradeildinni fyrir tveimur árum síðan en þá missti Róbert af Íslandsferðinni vegna fæðingar dóttur sinnar. En nú er ekki annað í spilunum en að hann komi með félaginu hingað til lands.

„Síðasti leikur féll auðvitað í skuggann á því sem var að gerast hjá mér síðast en auðvitað hefði verið gaman að vera með í þeim leik. Það er því gaman að fá þetta tækifæri aftur og aðallega gaman að fá að koma heim og spila á Íslandi. Ekki skemmir fyrir að það er á móti Fram."

Þetta er þriðja árið í röð sem Gummersbach mætir íslensku liði í Evrópukeppnunum en í fyrra var liðið með Val í riðli í Meistaradeildinni. Þá var Alfreð Gíslason þjálfari liðsins en hann er í dag þjálfari Kiel.

„Ferðin til Íslands var mjög skemmtileg í fyrra en þá náðum við að þjappa okkur vel saman og fórum til að mynda í ferð á Vatnajökul. Ég veit nú ekki hvort að það verður eitthvað svipað núna."

Sem fyrr segir var skipt um þjálfara fyrir tímabilið og þá urðu nokkrar breytingar á leikmannahópnum. Guðjón Valur Sigurðsson fór til Rhein-Neckar Löwen og Sverre Jakobsson til HK. Róbert segir að liðið sé enn að slípast saman.

„Þetta hefur verið upp og niður. Við höfum ekki verið að tapa neinum óþarfaleikjum frá því að við töpuðum í fyrstu umferðinni. Annars hefur þetta verið bara ágætt en ekkert meira en það."

Hann segir þó að liðið ætli sér stóra hluti í Evrópukeppninni. „Mitt persónulega markmið er allavega að komast í úrslitin og vinna þar. En það er ekkert sjálfgefið enda mörk sterk lið frá Þýskalandi, Danmörku og Spáni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×