Handbolti

Ciudad Real tapaði öðrum leiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur gat ekki spilað með Ciudad Real í gær.
Ólafur gat ekki spilað með Ciudad Real í gær. Mynd/Vilhelm
Ciudad Real mátti sætta sig við sitt annað tap í fjórum leikjum í spænsku úrvalsdeildinni í handbolta í gær.

Tapið var afar óvænt en Ciudad Real vann alla titla sem félagið keppti um á síðustu leiktíð. Í gær tapaði það fyrir Arrate á útivelli, 28-26.

Ólafur Stefánsson gat ekki spilað með Ciudad Real þar sem í ljós kom á síðustu stundu að hann þurfti að vera eftir á hóteli liðsins.

Barcelona og Granollers eru enn með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir en Ciudad Real er í sjötta sæti deildarinnar með sex stig.

Það var Íslendingaslagur þegar að FC Kaupmannahöfn tók á móti GOG í dönsku úrvalsdeildinni í gær. Arnór Atlason skoraði eitt mark fyrir FCK sem vann leikinn með sjö marka mun, 33-26. Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði tvö mörk fyrir GOG en Snorri Steinn Guðjónsson gat ekki spilað með liðinu vegna meiðsla.

Þá skoraði Gísli Kristjánsson tvö mörk fyrir Nordsjælland sem tapaði stórt fyrir Álaborg á útivelli, 32-20.

FCK er komið á topp deildarinnar en liðið er með sex stig eftir fjórar umferðir. GOG og Nordsjælland eru bæði með fjögur stig.

Ragnar Óskarsson skoraði þrjú mörk fyrir Dunkerque sem vann góðan sigur á Aurillac, 35-26.

Ragnar og félagar eru í sjöunda sæti frönsku úrvalsdeildarinnar með fjögur stig eftir fjóra leiki. Montpellier er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×