Handbolti

HM: Lazarov bætti met Yoon frá HM á Íslandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kiri Lazarov fór mikinn á HM í handbolta.
Kiri Lazarov fór mikinn á HM í handbolta. Nordic Photos / AFP

Kiril Lazarov, leikmaður landsliðs Makedóníu, bætti í dag markamet Kyung-Shin Yoon sem hann setti á HM á Íslandi fyrir fjórtán árum síðan.

Lazarov skoraði í dag fimmtán mörk er Makedónía vann nauman sigur á Suður-Kóreu, 32-31, í leik liðanna í 11. sætið á HM í handbolta í Króatíu. Yoon lék lengi með landsliði Suður-Kóreu og er markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar frá upphafi.

Lazarov fór mikinn í leiknum í dag og skoraði átta af síðustu þrettán mörkum leiksins en alls skoraði hann níu mörk í síðari hálfleik. Þar með skoraði hann alls 92 mörk á mótinu en gamla metið hans Yoon var 86 mörk.

Það var þó Stojance Stoliov sem skoraði sigurmark Makedóna á lokamínútu leiksins í dag.

Makedónía sló út Ísland í undankeppni mótsins og þótti koma á óvart með því að komast í milliriðlakeppni mótsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×