Viðskipti erlent

Fjárfestar tapa milljörðum á þorskeldi í Noregi

Fjárfestar hafa tapað 100 milljónum norskra kr. eða um 2.2 milljörðum kr. á þorskeldisstöðinni Branco í Noregi. Gjaldþrotaskipti á Branco eru til meðferðar hjá þingréttinum í Sunnmöre en stöðin varð gjaldþrota eftir níu ára rekstur.

Í umfjöllun um málið í Finansavisen er rætt við Christian Garman forstjóra Branco sem segir að verð á eldisþorski sé orðið of lágt til að það standi undir rekstrarkostnaðinum. Þar að auki varð Branco fyrir töluverðu áfalli í fyrra vegna fiskidauða í eldisstöðvum þess.

Samkvæmt Finansavisen er Branco ekki eina þorskeldisstöðin sem á í fjárhagsvandræðum í Noregi þessa dagana. Samanlagt tap 12 stærstu stöðvanna á síðasta ári nam hálfum milljarði norskra kr. eða um 11 milljörðum kr.

Aslak Berge sérfræðingur í fiskeldi í Noregi sagði s.l. sumar að mikil kreppa væri í vændum fyrir norskar þorskeldisstöðvar og hann reiknar ekki með að verð á eldisþorski hækki á næstunni. Það er einkum aukinn kvóti á villtum þorski, sérstaklega í Barentshafi, sem mun halda verði á eldisþorskinum niðri á næsta ári.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×