Viðskipti erlent

Bylgja af handtökum í vændum á Wall Street

Lögreglan í Bandaríkjunum undirbýr nú fjölda af nýjum handtökum meðal toppanna á Wall Street vegna ólöglegra innherjaviðskipta.

Í frétt um málið á Bloomberg-fréttaveitunni segir að rannsókn lögreglunnar nái tvö ár aftur í tímann og að ákæran gegn Raj Rajaratnam, forstjóra Galleon Management, sé aðeins fyrsta málið af mörgum. Aðrir sem hafa verið ákærðir með Raj eru yfirmaður hjá IBM, starfsmenn Intel og McKinsey % Co, tveir fyrrum starfsmenn Bear Stearns og greinandi hjá Moody´s.

Meðal þeirra fyrirtækja sem urðu fyrir barðinu á innherjaviðskiptunum voru Google og Hilton hótelkeðjan.

Hluti af sönnunargögnum ákæruvaldsins eru símaupptökur sem sýna fram á að þeir sem ákærðir hafa verið vissu gjörla að það sem þeir gerðu voru brot gegn lögum um kauphallarviðskipti.

Bloomberg segir að málið séu klár skilaboð til fjárfesta um að yfirvöld í Bandaríkjunum ætla sér að setja meiri kraft í rannsóknir á ólöglegum tengslanetum í afleiðufrumskóginum á Wall Street.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×