Viðskipti erlent

Norðurlönd með mikla þörf fyrir nýjar flugvélar

Flugfélögin á Norðurlöndunum munu þurfa 404 nýjar farþegaflugvélar með yfir 100 sæti næstu tuttugu árin, frá 2009-2028, samkvæmt nýjustu markaðsspá Airbus. Þörfin fyrir þessar nýju vélar er aðallega vegna endurnýjunar á eldri og eyðslufrekari vélum sem verður skipt út fyrir vistvirkari vélar sem endurspegla umhverfisvitundina á svæðinu.

Í tilkynningu segir að árið 2028 mun farþegaflugvélum fyrir fleiri en hundrað farþega hafa fjölgað um yfir 50% - úr 319 í 488 flugvélar. Af þeim 319 flugvélum sem eru á Norðurlöndunum núna, mun 235 verða skipt út, 75 verða nýttar annars staðar og níu verða áfram í notkun.

327 af þessum 404 nýju flugvélum verða farþegaþotur með einum gangvegi, í sama flokki og hinar sparneytnu flugvélar Airbus af gerðinni A320, 77 vélanna verða breiðþotur með tveimur gangvegum sem taka á bilinu 250-400 farþega. Vélar Airbus sem henta í þetta hlutverk eru A330/A340 línan og svo, frá og með árinu 2013, einnig A350XWB.

Heildar markaðsvirði endurnýjunar og breytingar yfir í vistvirkar flugvélar sem taka yfir 100 farþega er áætlað 38,7 milljarðar Bandaríkjadala.

„Flugsamgöngur á Norðurlöndunum hafa aukist um 35% á tímabilinu 2000-2009," segir Andrew Gordon, yfirmaður markaðsrannsókna hjá Airbus, „og þessi aukning hefur aðallega verið vegna viðskiptaferða, persónulegra ferða og skemmtiferða.

Flug er forsenda fyrir fjölgun erlendra ferðamanna á Norðurlöndunum. Airbus sér möguleika á því að hægt verði að auka vistvirkni bæði innan Norðurlandanna og milli Norðurlandanna og Evrópu með flugvélum fyrirtækisins sem eru í fremsta flokki hvað varðar tækni og sparneytni. Flugsamgöngur skipta miklu máli í efnahagslífi heimsins og á Norðurlöndunum hefur það lengi verið viðurkennt að vöxtur efnahagslífsins og náttúruvernd fara vel saman."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×