Viðskipti erlent

Norski seðlabankinn sá fyrsti sem hækkar stýrivexti

Norski seðlabankinn hækkaði stýrivexti sína í dag og varð þar með fyrsti seðlabankinn í Evrópu til að gera slíkt frá því að fjármálakreppan skall á í fyrra. Hækkunin nam 0,25 prósentustigum og fóru vextirnir við það í 1,5%.

Í frétt um málið á börsen.dk segir að búist hafði verið við því að Norðmenn yrðu þeir fyrstu til að ríða á vaðið hvað stýrivaxtahækkun varðar eftir langt tímabil stöðugra lækkana á vöxtunum. Þannig hafi 19 og 20 sérfræðingum sem spáðu fyrir um ákvörðun norska seðlabankans á Bloomberg-fréttaveitunni gert ráð fyrir hækkuninni.

Stýrivaxtahækkunin hjá norska seðlabankanum er tilkomin vegna aukinni opinberra útgjalda, hækkandi hrávöruverðs og vaxandi verðbólgu.

Noregur er nú opinberlega kominn út úr kreppunni en henni lauk þar í landi á öðrum ársfjórðungi ársins.

Sérfræðingar reikna með áframhaldandi stýrivaxtahækkunum í Noregi. Gert er ráð fyrir að vextirnir fari í 2% innan hálfs árs og 2,5% innan árs.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×