Viðskipti erlent

Barclays og HSBC högnuðust um 3 milljarða punda

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Starfsemi Barclays gekk vel á fyrri helmingi ársins. Mynd/ AFP.
Starfsemi Barclays gekk vel á fyrri helmingi ársins. Mynd/ AFP.
Bresku bankarnir Barclays og HSBC skiluðu milljarða punda hagnaði á fyrri helmingi ársins, samkvæmt árshlutauppgjöri sem birt var í dag. Hvorugur þessara banka þurfti opinbera aðstoð þegar að lausafjárkreppan skall hvað harðast á bankakerfinu.

Bankarnir högnuðust um þrjá milljarða punda, tæplega 640 milljarða króna, hvor um sig. Þetta er um átta prósenta aukning á hagnaði hjá Barclays en 57% minni hagnaður hjá HSBC miðað við árið áður. Stjórnendur beggja banka horfa fram á aukin vanskil á greiðslum á lánum hjá skuldunautum þeirra.

Árangur Baclays þýðir að meðal bónus- og kaupaukagreiðslur til starfsmanna bankans verða um 200 þúsund pund, eða 42 milljónir króna, á mann fyrir árið ef niðurstöður fyrir árið í heild verða svipaðar og þær voru í hálfsársuppgjörinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×