Viðskipti erlent

Viðsnúningur til hins verra hjá JJB Sports

Mikill viðsnúningur hefur orðið til hins verra hvað varðar verð á hlutum í íþróttaverslanakeðjunni JJB Sports í dag. Eftir mikla hækkun í gær hafa hlutirnir fallið um 8% í dag að því er segir á Reuters.

Í gær hækkuðu hlutirnir um rúm 40% eftir að ljóst varð að keðjan hafði náð samkomulagi við leigusala sína um lækkanir á húsleigu og breytingar á greiðslufyrirkomulagi á leigugreiðslum.

Hugsanlega er lækkun hlutanna í dag hagnaðartaka hjá þeim sem veðjuðu á réttan hest í gær en þá stóð valið hjá JJB Sports um greiðslustöðvun eða fyrrgreint samkomulag.

Reuter greinir einnig frá því að fjárfestingarsjóðurinn Crystal Amber hafi fest kaup á 13% hlut í JJB Sports en sá hlutur var áður í eigu Kaupþings sem tók hann af Chris Ronnie fyrrum forstjóra JJB Sports og Exista með veðkalli. Bankinn setti 23% hlut sinn á markaðinn í síðasta mánuði og um tíma var óljóst hvar sá hlutur hefði hafnað að lokum.

Með kaupum Crystal Amber hafa málin skýrst því talið er að Mike Ashley, eigandi Newcastle, sé eigandi að þeim 10% sem á vantar.

Forráðamenn Crystal Amber segja að þeir telji að markaðsvirði JJB Sports sé vanmetið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×