Viðskipti erlent

Cimber Sterling sparar lakkið og lendir í vandræðum

Flugfélagið Cimber Sterling hefur ítrekað lent í því á alþjóðaflugvöllum að fá ekki afgreitt eldsneyti á vélar sínar þar sem þær eru enn merktar í litum og með nafni hins gjaldþrota Sterling flugfélags. „Það er ekki auðvelt að fljúga með nafn og lógó gjaldþrota flugfélags í meters háum stöfum á flugvélaskrokknum," segir í umfjöllun Jyllands Posten um málið

Eftir gjaldþrot Sterling fyrr í ár yfirtók Cimber reksturinn og nafn félagsins breyttist í Cimber Sterling. Með í yfirtökunni fylgdu sex af fyrrum farþegavélum Sterling. Cimber Sterling er nú að naga sig í handarbökin fyrir að hafa ekki lakkað, eða málað yfir Sterlingnöfnin og lógóin á skrokkum vélanna. Aðeins er búið að gera slík við eina af vélunum sex.

Hið gjaldþrota Sterling skildi eftir sig ógreidda reikninga á flugvöllum víða um heiminn. Athugulir starfsmenn á þessum flugvöllum haf því tvisvar neitað að afgreiða vélarnar um eldsneyti og hefur þetta valdið töfum á brottförum þessara véla.

„Við gátum að sjálfsögðu sýnt fram á að þetta voru okkar vélar en ekki frá Sterling Airways. Á endanum fengum við eldsneyti á þær en vegna fjármálakreppunnar er fólk orðið varfærið," segir Signe Thorup. „Því miður olli þetta töfum hjá farþegum okkar."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×