Viðskipti erlent

Lufthansa: Flugliðar í þjóðbúninga og leðurhosur

Þýska flugfélagið Lufthansa ætlar að halda upp á Októberhátíðina í 30.000 fetum. Í tilefni hennar munu flugliðar Lufthansa kasta búningum sínum og klæðast í þess stað suðurbæverska þjóðbúningum „dirndl" eða leðurhosum eftir því hvers kyns flugliðarnir eru.

 

Þessar trakteringar verða í boði á ákveðnum flugleiðum Lufthansa meðan á hinni þekktu ölhátíð stendur í Bæjaralandi. Jafnframt verður boðið upp á bæverska sérrétti eins og weisswurst, sauerkraut og knödl á matseðlinum um borð.

 

Í samtali við business.dk segir John Nielsen forstjóri Lufthansa í Danmörku að framangreint verði í boði á flugleiðum félagsins til og frá Munchen. Hinsvegar er ekki ætlunin að bjóða upp á öl af krana um borð. Ekki er pláss fyrir slíkt en öl á flöskum stendur að sjálfsögðu til boða.

 

Fyrsta Októberhátíðarferðin verður farin frá Munchen þann 16. September.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×