Handbolti

HM: Þjóðverjar brjálaðir - Kraus meiddur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þjóðverjar voru sársvekktir í leikslok.
Þjóðverjar voru sársvekktir í leikslok. Nordic Photos / Getty Images
Þjóðverjar eru allt annað en ánægðir með slóvenska dómaraparið sem dæmdi leik þeirra gegn Norðmönnum í dag. Noregur vann leikinn, 25-24, eftir dramatískar lokasekúndur.

Norðmenn misstu boltann í innkast þegar fjórtán sekúndur voru til leiksloka og voru þar að auki tveimur mönnum færri.

Dómaraparið lét hins vegar Christian Schöne þrítaka innkastið þar sem þeir vildu meina að það hefði verið vitlaust tekið. Sekúndurnar tifuðu burt og Norðmenn fögnuðu sigrinum.

Heiner Brand þjálfari var brjálaður. Hann hljóp að dómurunum með hnefann á lofti og virtist sem svo að hann ætlaði að lemja annan dómarann.

„Það er alveg ljóst að ég æsti mig mikið út í dómarana," sagði Brand eftir leikinn. „En það var ekki í eina skiptið. Ég varð mjög reiður þegar Mimi Kraus meiddist."

Fyrirliðinn Kraus meiddist illa þegar að norski landsliðsmaðurinn Stian Vatne hrinti honum í gólfið með þeim afleiðingum að hann meiddist illa á hné. Brand staðfesti eftir leik að Kraus verði ekki með Þjóðverjum í leiknum mikilvæga gegn Dönum á þriðjudaginn.

„Ég hef ekki hugmynd um hvað þeir hafa á móti okkur," sagði skyttan Pascal Hens eftir leikinn. „Það lítur út fyrir að þeir vilja ekki fá okkur í undanúrslitin. Ég ætla annars ekkert að tjá mig um dómarana en ég er algerlega búinn að fá nóg."

Eftir leik mætti Dominik Klein, leikmaður Kiel, í sjónvarpsviðtal og skoðaði síðustu sekúndurnar aftur á myndbandi. „Þetta er auðvitað algjör brandari," var það sem hann sagði.

Markus Baur, þjálfari Lemgo, er sérfræðingur RTL-sjónvarpsstöðvarinnar og sagði eftir leik að dómararnir hefðu aldrei átt að fá að dæma leikinn.

„Maður hefur séð þessa dómara reglulega á knæpunni síðustu daga. Frammistaða þeirra í dag þarf því ekkert að koma á óvart," sagði Baur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×