Viðskipti erlent

Segir að Írland og Grikkland gætu yfirgefið evrusamstarfið

Gjaldmiðlasérfræðingar Standard Bank telja að allar líkur á að Írland og Grikkland muni yfirgefa evrusamstarfið fyrir lok næsta árs. Bæði löndin séu nú í „óþolandi" efnahagsaðstæðum.

 

Í frétt um málið á Bloomberg fréttaveitunni er haft eftir Steve Barrow forstjóra gjaldmiðladeildar Standard Bank að lönd eins og Írlandi og Grikkland gætu ekki átt möguleika á því að vaxta út úr kreppunni.

 

Það sem einkum vekur áhyggjur er hin mikli vaxtamunur sem orðinn er á ríkisskuldabréfum Grikkja og Íra samanborið við Þýskaland. Vextir á grískum ríkisskuldabréfum gætu orðið 4% hærri en á þýskum á næsta ári en sem stendur er munurinn 2,1%. Á síðustu fimm árum var þessi munur 0,67% að jafnaði.

 

Líkur eru á að munurinn vaxi einnig milli Írlands og Þýskalands og að hann verði 3% á næsta ári en í dag er hann 1,7%.

 

Hinn mikli munur eykur vaxtabyrðina hjá Grikkjum og Írum en þessar þjóðir eiga ekki möguleika á að fella gengi gjaldmiðla sinna til að mæta honum. Munurinn er talinn meira eyðileggjandi fyrir efnahag Grikkja og Íra en þrýstingur á gengið, að mati Standard Bank.

 

Fjármálaráðherra Íra gefur lítið fyrir þá hugmynd að landið yfirgefi evrusamstarfið og segir slíkt álíka líklegt og að Texas segi sig frá dollaranum. Gríski forsætisráðherran tekur í sama streng og segir engar líkur á að Grikkir leggi niður evruna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×