Viðskipti erlent

Unibrew lækkar: Stór eigandi úti að synda í Atlantshafi

Hlutir í dönsku bruggverksmiðjunum Royal Unibrew hafa átt tvo afleita daga í kauphöllinni í Kaupmannahöfn. Í gærdag lækkuðu hlutirnir um tæp 10% og í dag hafa þeir lækkað um rúm 6% í viðbót. Á börsen.dk segir að ástæðan séu áhyggjur af miklum skuldum Unibrew og því að einn stærsti eigandinn sé..."úti að synda í Atlantshafinu, nánar tiltekið á Íslandi."

 

Eins og fram hefur komið í fréttum eiga Stoðir og Straumur samtals rúmlega 20% í Royal Unibrew sem eru næststærstu bruggverksmiðjur Danmerkur. Sá hlutur er nú virði rúmlega 200 milljón danskra kr. eða um 5 milljarða kr.

 

Unibrew hafði gengið mjög vel vikuna fram að síðustu helgi í kauphöllinni. Höfðu hlutirnir hækkað átta daga í röð og samtals frá því í mars s.l. er þeir náðu botninum höfðu þeir hækkað um 536%. Gengi hlutana á föstudag var rétt tæpar 220 kr. danskar en í morgun voru þeir komnir niður í rúmar 190 kr. danskar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×