Viðskipti erlent

Danskir bankamenn aðstoða skuldsetta í sjálfboðavinnu

Danskir bankamenn munu aðstoða skuldsetta Dani við að koma skikki á fjármál sín í sjálfboðavinnu og viðkomandi að kostnaðarlausu. Verkefni þetta fer af stað um miðjan þennan mánuð og munu 36 starfandi bankamenn standa að ráðgjöfinni í þremur borgum Danmerkur.

Samkvæmt frétt um málið í Jyllands Posten er hugmyndin að þessari ráðgjöf vera upphaflega komin frá KFUM og Samtökum kristilegra stúdenda í Danmörku en verkefnið nýtur stuðings danska Fjármálaráðsins (Finansrådet) og Innanríkis- og félagsmálaráðuneytisins.

Hugmyndin er að það fólk sem venjulega sækir sér ekki ráðgjöf um fjármál í bönkum geti komið inn af götunni og fengið slíka ráðgjöf sér að kostnaðarlausu.

Fjármálaráðið mun samhæfa ráðningar bankamannanna að ráðgjöfinni en henni verður komið á fót á fjórum stöðum í Kaupmannahöfn, og einum í Óðinsvéum og Árósum til að byrja með.

Fram kemur í fréttinni að danskir bankar hafi tekið vel í það að starfsmenn þeirra geti notað hluta af vinnutíma sínum til þessarar starfa. Og áhuginn er mikill meðal bankastarfsmanna því í fyrstu sóttu fleiri um að gerast sjálfboðaliðar en þörf var á.

Þeir bankamenn sem vinna sem ráðgjafar gera það á eigin vegum og eru aldrei fulltrúar þess banka sem þeir vinna fyrir meðan á ráðgjöfinni stendur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×