Viðskipti erlent

Búðahnupl miðstéttarfólks vaxandi vandamál í Bretlandi

Búðahnupl hefur aldrei mælst meira í Bretlandi og það er miðstéttarfólk sem stendur fyrir aukningunni. Það fer út í þessa glæpi til að reyna að halda í fyrrum lífstíl sinn.

Í umfjöllun um málið á RetailWeek segir að búðahnupl hafi aukist um 20% í Bretlandi á síðustu 12 mánuðum og kosti það verslunareigendur nú tæpa 5 milljarða punda eða um 1.000 milljarða kr. á ári.

Samkvæmt Retail Global Theft Barometer er búðahnupl umfangsmest í Bretlandi af öllum Evrópuþjóðum.

Neil Matthews forstjóri Checkpoint Systems NCE sem nýlega gaf út niðurstöður rannsókna sinna á búðahnupli segir að aukning á búðahnupli í Bretlandi á einu ári sé sú mesta sem þeir hafi séð hingað til.

„En það sem kemur kannski mest á óvart, fyrir utan tölurnar sjálfar, er að aukning er ekki meðal hefðbundinna búðaþjófa," segir Matthews. „Við sjáum meir og meir áhugamenn sem stela vörum til persónulegra nota í stað þess að stela þeim til að selja öðrum. Þetta sést best á mikilli aukningu búðahnupls meðal miðstéttarfólks, fólk sem hefur farið í þjófnaði til að viðhalda lífsgæðum sínum."

Fyrrgreind rannsókn náði til 1.000 verslana um allan heim.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×