Handbolti

Nánast ómögulegt að sanna mútumál

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kjartan Steinbach.
Kjartan Steinbach.

Kjartan Steinbach, fyrrum formaður dómaranefndar Alþjóða handknattleikssambandsins, segir að nánast ómögulegt sé að sanna mútumál eins og það sem kom upp í Þýskalandi fyrr í vikunni.

Þá birtust ásakanir þess efnis að forráðamenn Þýskalandsmeistara Kiel og þáverandi þjálfari liðsins, Noka Serdurasic, hafi mútað pólskum dómurum úrslitaleiks liðsins gegn Flensburg í Meistaradeild Evrópu árið 2007.

Framkvæmdarstjóri Kiel, Uwe Schwenker, hefur þverneitað þessu og ráða mátti á orðum formanns þýska handknattleikssambandsins að ómögulegt væri að sanna eitthvað í þessu máli þar sem sönnunargögnin væru engin.

„Mér finnst ferlega ólíklegt að lið eins og Kiel hafi gert þetta. En auðvitað er aldrei hægt að fullyrða neitt um það. Það er þó afar erfitt að ætla að sanna nokkuð í svona málum," sagði Kjartan.

Fjölmiðlar í Þýskalandi segja sumir að Serdurasic hafi sést afhenda dómurum leiksins hvítt umslag fyrir leikinn.

„Ég hef tekið við tugum svona umslaga, eins og allir dómarar og eftirlitsmenn. Ég var þá búinn að senda félögum upplýsingar um útlagðan kostnað svo menn geti haft þetta klárt þegar við komum á staðinn. Þá er manni afhent þetta í umslagi og maður kvittar fyrir mótttöku þess."

„Hafi svo verið að pólsku dómararnir hafi tekið við hvítu umslagi, hver segir að það hafi ekki bara verið umslag sem þeir áttu að fá?"

Hann blæs einnig á þær sögur að fjöldi dómara frá Austur-Evrópu séu reiðubúnir að taka við mútugreiðslum.

„Þetta er ekki eins slæmt og af er látið. Auðvitað geta komið upp mál með ákveðnum tilvikum en það hafa aldrei komið fram neinar sannanir fyrir mútum. Það hefur oft komið upp kvittur um slík mál en aldrei neinar sannanir."

„Í störfum mínum fyrir dómaranefnd IHF komu upp mál þar sem við horfðum á leiki og var þá strax augljóst að ákveðið svínarí væri þar í gangi. Við dæmdum tvö dómarapör í ævilöng bönn á mínum tíma og tvö önnur í styttri bönn. En við byggðum það ekki á því að um mútur hafi verið að ræða heldur aðeins það sem við sáum á upptökunni," sagði Kjartan sem var formaður nefndarinnar frá 1996 til 2004.

En Kjartan segir þó að hafi dómarar einbeittan brotavilja í dómgæslu geti þeir komist upp með slíkt.

„Það er bara þannig með dómgæslu í handbolta að vafaatriðin eru svo mörg. Góðir dómarar geta því hagað dómgæslu sinni á ákveðinn máta en án þess þó að það sé hægt að sanna nokkuð sakhæft. Það er nánast útilokað."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×