Viðskipti erlent

Miliband gekk gegn vilja Brown með Íslandsummælum

David Miliband utanríkisráðherra Bretlands gekk gegn vilja Gordon Brown forsætisráðherra landsins þegar hann tjáði Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra að Icesave deilan hefði ekki áhrif á aðildarumsókn Íslands að ESB.

Eins og kunnugt er af fréttum ræddi Össur við Miliband í gærdag um stöðuna sem upp er komin í kjölfar ákvörðunnar forseta Íslands að senda Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar mun Miliband hafa fullvissað Össur um að Bretar myndu ekki beita sér gegn aðildarumsókn Íslands að ESB.

Blaðið Daily Mail fjallar um málið í dag og þar segir að þessi ummæli Miliband hafi gengið þvert gegn orðum Gordon Brown sem hefur hótað alvarlegum afleiðingum fyrir Ísland ef þeir greiði ekki Icesave skuldir sínar. Vitnað er í yfirlýsingu frá breska utanríkisráðuneytinu eftir samtal þeirra Össurar og Milibands þar sem áréttað er að Bretar styðji að fullu umsókn Íslands að ESB.

Fram kemur í blaðinu að ummæli Miliband verði gagnrýnd á þeim grundvelli að hann sé að gefa eftir gagnvart Íslendingum í staðinn fyrir að standa með breskum skattgreiðendum. Bretland getur komið í veg fyrir ESB viðræður Íslands með því að kjósa gegn þeim.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×