Viðskipti erlent

Ráðherra segir Brasilíu ógnað af gjaldmiðlastríði

Gudio Mantega fjármálaráðherra Brasilíu segir að landinu sé nú ógnað af gjaldmiðlastríði sem geysi á alþjóðamörkuðum. Ríkisstjórnir um allan heim reyni nú að veikja gengi gjaldmiðla sinna til að auka samkeppnishæfi hagkerfa sinna. Á móti veikist samkeppnishæfni þjóða á borð við Brasilíu.

Mantega lét þessi orð falla í viðtali við CNBC sjónvarpsstöðina í Bandaríkjunum. Ummælin koma í kjölfar fregna um að seðlabankastjórar í löndum á borð við Japan, Kína og Taiwan hafa ítrekað gripið inn í gjaldeyrismarkaði sína til að reyna að veikja gengi sinna eigin gjaldmiðla.

Mantega hefur þarna sagt opinberlega frá því sem margir hafa hvíslað um undanfarnar vikur og mánuði. Veikara gengi gjaldmiðils þýðir að útflutningur frá viðkomandi landi verður ódýrari, eykst því og aðstoðar þannig við að koma hjólum atvinnulífsins í gang að nýju eftir kreppuna. Gott dæmi um þetta er Ísland en útflutningsatvinnuvegir landsins hafa blómstrað eftir að gengi krónunnar hrundi í kjölfar bankahrunsins haustið 2008.

Kína er dæmi um land þar sem stjórnvöld hafa ítrekað beitt inngripum á gjaldeyrismarkaði til að þrýsta gengi gjaldmiðils síns niður. Þetta hafa kínversk stjórnvöld gert þrátt fyrir gífurlegan þrýsting frá Bandaríkjamönnum um að láta gjaldmiðilinn í friði og leyfa honum að styrkjast á eðlilegan hátt.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×