Viðskipti erlent

Vaxandi atvinnuleysi gæti kosta Dani 1.000 milljarða

Vaxandi atvinnuleysi meðal Dana gæti kostað ríkissjóð landsins 45 milljarða danskra kr eða rúmlega 1.000 milljarða kr. í ár og næsta ár. Kostnaður vegna atvinnuleysisins í fyrra nam tæplega helmingi af þessari upphæð eða 20 milljörðum danskra kr.

Fjallað er um málið í Politiken en fyrrgreindar tölur eru byggðar á úttekt viðskiptaráðs verkalýðshreyfingarinnar (AE) í Danmörku. Þær byggja á tölum um fjölda atvinnulausra og tölum um ört minnkandi nýráðningar á danska vinnumarkaðinum.

Lars Andersen forstjóri AE segir að hingað til hafi dönskum stjórnvöldum mistekist að koma einkaneyslu landsins í gang að nýju í yfirstandandi kreppu.

„Eins og fram kemur í úttekt okkar er mjög dýrkeypt fyrir verkalýðsfélög og hið opinbera ef maður gerir ekkert á meðan að atvinnuleysið rýkur upp," segir Andersen. „Benda má á að hið mikla atvinnuleysi er stærsti þátturinn í miklum hallarekstri á ríkissjóði í ár og á næsta ári."

Sem stendur eru atvinnulausir í Danmörku tæplega 123.000 talsins eða um 4,4% af vinnuaflinu. Í úttekt AE er reiknað með að þessi fjöldi fari ört vaxandi á næstunni og nái tölunni 180.000 þegar kemur inn í árið 2011. Gangi það eftir verður kostnaðurinn fyrrgreindar 45 milljarðar danskra kr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×