Handbolti

Björgvin og Alexander komnir með liðum sínum í undanúrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson og félagar í Kadetten eru að gera flotta hluti.
Björgvin Páll Gústavsson og félagar í Kadetten eru að gera flotta hluti. Mynd/DIENER

Landsliðsmennirnir Björgvin Páll Gústavsson og Alexander Petersson komust í gær í undanúrslit EHF-bikarsins í handbolta með liðum sínum Kadetten og Flensburg.

Björgvin Páll Gústavsson og félagar í svissneska liðinu Kadetten slógu út þýska liðið Göppingen eftir æsispennandi baráttu þar sem Kadetten fór áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli. Kadetten vann seinni leikinn 28-24 á heimavelli en hafði tapað 33-29 út í Þýskalandi.

Alexander Petersson og félagar í Flensburg unnu báða leiki sína á móti slóvenska liðinu Celje Lasko, heimaleikinn 33-29 umsíðustu helgi og útileikinn svo 35-32 í gær. Alexander skoraði 3 mörk.

Tvö önnur Íslendingalið geta komist í undanúrslitin í dag. Lemgo, lið Loga Geirssonar og Vignis Svavarssonar, mætir Aragón á Spáni og Ragnar Óskarsson og félagar í franska liðinu Dunkerque mæta Naturhouse La Rioja frá Spáni en það lið sló Hauka út úr keppninni.

Lemgo vann fyrri leikinn 30-23 á heimavelli en Dunkerque gerði 33-33 jafntefli við Naturhouse La Rioja í Frakklandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×