Handbolti

Sverre tekur á móti Haukum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sverre tekur hér á Christian Zeitz, leikmanni Kiel.
Sverre tekur hér á Christian Zeitz, leikmanni Kiel. Nordic Photos / Bongarts

Fyrri leikur Íslandsmeistara Hauka og þýska liðsins Grosswallstadt fer fram ytra í dag. Með Grosswallstadt leikur landsliðsmaðurinn Sverre Andreas Jakobsson en hann hlakkar til að mæta löndum sínum.

„Það er alltaf stórfurðulegt að mæta íslenskum liðum. Ég er reyndar öllu vanur frá tíma mínum með Gummersbach. Þá mættum við bæði Fram og Val,“ sagði Sverre við Fréttablaðið í gær en hann segir þýska liðið ekki ætla að falla í þá gryfju að vanmeta Haukana.

„Það er aukapressa á mér þar sem við erum að mæta íslensku liði og ég verð brjálaður ef einhver okkar ætlar að leyfa sér að slaka á. Ég mun ekki fyrirgefa þeim það ef við komumst ekki áfram. Þetta verður örugglega ekki auðvelt en við eigum samt að vinna. Við erum nú atvinnumannalið.“

Það vakti athygli að Grosswallstadt skyldi klúðra auglýsingamálum fyrir leikinn. Þeir auglýstu andstæðinginn sem HK en ekki Hauka.

„Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta þegar ég sá þetta. Ég rauk inn á skrifstofu og sagði mönnum frá mistökunum,“ sagði Sverre en var auglýsingunni breytt?

„Nei, reyndar ekki. Það var búið að prenta svo mikið og hengja upp út um allan bæ að það var ekki hægt. Fólk heldur því að HK sé að koma,“ sagði Sverre hlæjandi en hann lék einmitt með HK áður en hann fór til Grosswallstadt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×