Viðskipti erlent

Moody´s setur Grikkland í ruslflokk

Matsfyrirtækið Moody´s hefur sett lánshæfiseinkunn Grikklands í svokallaðann ruslflokk. Moody´s lækkaði einkunina um fjögur stig eða úr A1 niður í Ba1. Þar með hafa öll stóru matsfyrirtækin þrjú, Moody´s, Fitch Ratings og Standard & Poors sett Grikkland í ruslflokk.

Þótt að ákvörðun Moody´s hafi ekki átt að koma á óvart hafði hún þær afleiðingar að uppsveifla á markaðinum á Wall Street breyttist í niðursveiflu þegar þetta lá ljóst fyrir í gærkvöldi. Ennfremur hefur evran veikst töluvert í framhaldinu að því er segir í umfjöllun um málið á vefsíðunni epn.dk.

Gríska fjármálaráðuneytið brást strax við fréttunum í gærkvöldi og segir í tilkynningu frá ráðuneytinu að ákvörðun Moody´s endurspegli ekki þann árangur sem grísk stjórnvöld hafa náð á síðustu mánuðum hvað varðar hagræðingu og sparnað.

Skuldatryggingaálag Grikklands stóð í 795 punktum í morgun og hafði hækkað um 40 punkta frá því í gærdag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×