Handbolti

Bielecki meiddist illa á auga með pólska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karol Bielecki fagnar marki með Guðjóni Val Sigurðssyni.
Karol Bielecki fagnar marki með Guðjóni Val Sigurðssyni. Mynd/GettyImages
Ferill pólsku stórskyttunnar Karol Bielecki gæti verið í hættu eftir að hann meiddist illa á auga í landsleik Póllands og Króatíu um helgina. Bielecki er nýbúinn að framlengja samning sinn við Rhein-Neckar Löwen til ársins 2015 en svo alvarleg eru meiðslin að óttast er um að ferill hans sé í hættu.

Karol Bielecki var strax fluttur á sjúkrahús í Póllandi sem sérhæfir sig í augnaðgerðum en forráðamenn Rhein-Neckar Löwen eru að velta því fyrir sér að ná í hann á einkaflugvél félagsins og flytja hann á augnsjúkrahús í Þýskalandi.

Það var Króatinn Josip Valcic, verðandi leikmaður VfL Gummersbach, sem meiddi Bielecki svona illa á auganu í þessum æfingaleik þjóðanna.

Karol Bielecki er 28 ára gamall og hefur skorað 642 mörk í 147 landsleikjum fyrir Pólland. Hann skoraði 155 mörk í 34 leikjum með Rhein-Neckar Löwen í vetur og var 18. markahæsti leikmaður þýsku deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×